Bangsi og leyniskytta á toppnum

janHinn heimsfrægi og viðkunnalegi bangsi Paddington trónir á toppi vinsældarlista helgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Alls sáu rúmlega 5.000 manns myndina yfir helgina.

Paddington er ungur björn frá Perú sem hefur dálæti á Bretlandi. Hann ákveður að fara til Lundúna til að leita sér að nýju heimili, en hann áttar sig fljótlega á því að stórborgarlífið er ekki eins og hann ímyndaði sér. Hann kynnist góðhjartaðri fjölskyldu á Paddington-lestarstöðinni sem býður honum tímabundið athvarf. Svo virðist sem að gæfan hafi snúist honum í hag, allt þangað til að þessi sjaldgæfi björn fangar athygli uppstoppara sem vinnur á safni.

Rétt á eftir í öðru sæti situr nýjasta kvikmynd Clint Eastwood, American Sniper. Myndin fjallar um sanna sögu bandaríska hermannsins og leyniskyttunnar Chris Kyle sem staðfest er að hafi komið að minnsta kosti 160 óvinum í Írak fyrir kattarnef og þurfti oft að taka erfiðar ákvarðanir. Myndin hefur hlotið nánast einróma lof gagnrýnenda.

Í þriðja sæti er framhaldsmyndin Taken 3. Liam Neeson er mættur á nýjan leik í hlutverki leyniþjónustumannsins fyrrverandi Bryans Mills sem eins og allir vita sem sáu fyrri Taken-myndirnar er ekkert lamb að leika sér við þegar hann tekur sig til. Eftir hremmingarnar sem Bryan Mills gekk í gegnum í fyrri myndunum tveimur telur hann sig nú geta varpað öndinni léttar og snúið sér að því sem hann hefur mestan áhuga á; velferð eiginkonu sinnar Lenore og dóttur þeirra, Kim. Sá draumur snýst hins vegar upp í martröð þegar hann kemur eitt kvöldið að Lenore látinni á heimili þeirra. Hún hefur verið myrt og það næsta sem Bryan veit er að hann er sjálfur grunaður um að hafa orðið henni að bana.

Screen Shot 2015-01-19 at 8.17.27 PM