Jesús er fundinn

Rodrigo Santoro mun leika sjálfan Jesús í endurgerð MGM og Paramount á stórmyndinni Ben-Hur, sem byggð er á skáldsögu Lew Wallace.

rodrigo

 

Leikstjóri myndarinnar er Wanted leikstjórinn Timur Bekmambetov, sem áður hefur spreytt sig á myndum með sögulegu ívafi, eins og Abraham Lincoln Vampire Hunter.

Myndin er sögð fjalla um fyrirgefninguna, og mun Jesús Kristur koma við sögu nokkrum sinnum í myndinni. Ben-Hur sér Jesús predika í Jerúsalem og verður svo vitni að krossfestingu hans.

Jack Huston leikur Ben-Hur, sem er prins Gyðinga, en hann er svikinn og seldur í þrældóm af fyrrum vini sínum Messala, sem Toby Kebbell leikur. Morgan Freeman leikur einnig eitt af aðalhlutverkunum, manninn sem þjálfar Ben-Hur í akstri á kappaksturshestvögnum, en Ben-Hur vinnur slíka keppni. Sofia Black D’Elia og Ayelet Zurer leika einnig stór hlutverk.

Fyrri myndin er frá árinu 1959 en þá var það leikstjórinn William Wiler sem gerði mynd upp úr bókinni með glæsibrag, og vann 11 Óskarsverðlaun. Í Hollywood hefur verið tíska síðustu misseri að gera myndir upp úr biblíusögum, og er skemmst að minnast Noah, og Exodus: Gods and Kings.

Tökur á Ben-Hur hefjast í Evrópu innan skamms, en frumsýning er áætluð 26. febrúar 2016.

Santoro lék m.a. í 300: Rise of an Empire. Þá er von á honum í Focus, ásamt Will Smith og Margot Robbie, og Jane Got a Gun, með Natalie Portman.