Óþekkjanlegur Gyllenhaal

Bandaríski leikarinn Jake Gyllenhaal er nánast óþekkjanlegur á nýrri ljósmynd úr væntanlegri hnefaleikamynd, Soutpaw, eftir að hafa hlaðið á sig vöðvamassa, eftir að hafa áður grennt sig um 14 kíló til að leika siðblinda vídeófréttamanninn í hinni stórgóðu Nightcrawler.

PX7386192Film---Ni_3123106b

Gyllenhaal bætti á sig sjö kílóum af vöðvum til að leika millivigtarboxara í myndinni, með því að stunda líkamsrækt sex tíma á dag í sex mánuði.

Leikstjóri Soutpaw, Antoine Fuqua, sagði við Deadline Hollywood fréttaveituna, sem var fyrst til að birta myndina: „Við í raun breyttum honum í skepnu. Jake, guð minn góður, hann er mjög rafmagnaður og kraftmikill bardagamaður í þessari mynd. Hann tekur verkefnið mjög alvarlega og gefur allt í það. Hann virkilega fórnar sér.“

Í samtali við kvikmyndablaðið Variety segir hann: „Aðeins tvær manneskjur hafa gert þetta – Robert De Niro í Raging Bull og Denzel Washington í The Hurricane. Svona menn vaxa ekki á trjánum.“

Dramatískar breytingar á líkamlegu atgervi hafa oft fylgt metnaðarfullum leikurum, sem til dæmis stefna að því að reyna að fá Óskarstilnefningu. Í ár var það Matthew McConaughey í Dallas Buyers Club, en hann fékk einmitt Óskarinn fyrir hlutverk sitt sem eyðnisjúklingur í þeirri mynd.  Til að breyta sér fyrir hlutverkið lifði hann á Diet Coke, eggjahvítum og kjúklingi, til að losa sig við 18 kíló.

De Niro bætti á sig einum 27 kílóum árið 1980 þegar hann lék boxarann Jake La Motta í Raging Bull.

Met De Niro var hinsvegar slegið árið 1987 þegar Vincend D´Onofrio bætti á sig 32 kílóum fyrir hlutverk í Full Metal Jacket.

Hin fremur netta Renee Zellweger bætti á sig 13,5 kílóum fyrir hlutverk sitt í Bridget Jone´s Diary árið 2001, en til að ná því takmarki lifði hún á 4.000 kalóríum á dag, kexi, sósu, pítsum, og smjörlegnum kartöflum. Hún missti kílóin svo öll aftur þegar hún skipti um mataræði og var aftur orðin grönn í myndinni Chicago ári síðar.

Eitt frægasta dæmið á síðari árum af þyngdarsveiflum er þegar Christian Bale grennti sig niður í 54 kíló fyrir hlutverk sitt í The Machinist áður en hann þyngdi sig svo snarlega upp í tæp 100 kíló á fimm mánuðum fyrir hlutverk sitt sem Batman í Batman Begins.