Tónlist úr Interstellar á netið

InterstellarFerill Hans Zimmer í kvikmyndatónlist er einn sá glæsilegasti þó víðar væri leitað. Zimmer varð fyrst þekktur fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Rain Man, árið 1988 og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir það verk.

Eftir það fylgdu myndir á borð við Driving Miss Daisy, Thelma & Louise og The Power of One. Zimmer vakti seinna meir athygli Disney kvikmyndafyrirtækisins, sem fengu hann í sínar raðir til þess að semja tónlistina við teiknimyndina Lion King árið 1992. Síðar fylgdu margar Hollywood stórmyndir í kjölfarið undir tónum Zimmers, m.a. Gladiator, Pearl Harbour, Pirates of the Carribbean, The Dark Knight og Inception.

Eitt nýjasta verkefni Zimmers er tónlistin í kvikmynd Christopher Nolan, Interstellar. Þeir hafa áður unnið saman við gerð The Dark Knight og Inception, en við gerð Interstellar þá samdi hann tónlistina án þess að vita um hvað hún snérist.

,,Áður en ég byrjaði að vinna við tónlistina að Interstellar þá skrifaði Nolan texta á blað og ég átti svo að koma með hugmyndir að tónlistinni úr þessum litla texta sem var ekki einu sinni um myndina,“ sagði Zimmer við tímaritið GQ.

Eitt besta tónverkið í myndinni er að margra mati þegar persónurnar Cooper og Brand ætla sér að festa sig við skipið sitt eftir að Dr. Mann hefur gert tilraun til þess með hræðilegum afleiðingum.

Zimmer setti verkið, sem nefnist No Time For Caution, á alnetið fyrir stuttu og má heyra það hér að neðan.