Lawrence raular drungalegt lag

Jennifer-Lawrence-The-Hunger-Games-Catching-FireJennifer Lawrence raular drungalegt lag sem heyrist í nýjustu The Hunger Games myndinni sem frumsýnd var nú um helgina um allan heim, þar á meðal hér á Íslandi.

Lagið heitir „The Hanging Tree“, en youtube vídeói með laginu var sérstaklega deilt í Taílandi og þar hefur verið hlustað á lagið 500.000 sinnum síðan það fór á netið fyrir tveimur dögum síðan, að því er The Independent greinir frá.

Leikstjóri myndarinnar, Francis Lawrence, sagði The Radio Times, að Lawrence hafi ekki notið þess sérstaklega að syngja lagið.

„Hún myndi sennilega segja að þetta hafi ekki verið uppáhaldsdagurinn hennar,“ sagði hann.

„Hana hryllti við að syngja lagið, hún grét aðeins um morguninn áður en hún þurfti að taka upp lagið. En hún gerði það samt og söng það allan daginn – og hún hataði mig fyrir að láta sig gera það – en hún gerði það og þetta er frábært.“

Lagið, „The Hanging Tree“, kemur fyrir í Mockingjay bókunum sem lag sem faðir Katniss Everdeen, persónunnar sem Jennifer Lawrence leikur, kenndi henni áður en hann dó.

Foreldrar hennar bönnuðu henni hinsvegar að syngja það sem barn vegna drungalegs textans:  Are you coming to the tree / Where they strung up a man they say murdered three.