Breyttist í sjálfssala á 7 tímum

Á föstudaginn næsta, þann 14. nóvember, verður framhald hinnar goðsagnakenndu gamanmyndar Dumb and Dumber frumsýnd, en hún heitir Dumb and Dumber to.

Í myndinni verður að finna, ef eitthvað er að marka stikluna úr myndinni, margt af því sem menn muna eftir úr fyrri myndinni, fyndið aulagrín, ferðalag, ótrúlega pirrandi hljóð, og hundabíllinn, meðal annars.

Þeir sem séð hafa stikluna hafa samt væntanlega einnig tekið eftir einu hlægilegu sem var ekki í fyrri myndinni, en það eru felulitabúningar!

Dumb-and-Dumber-to_990x532

Í einu atriði þá lifnar sjálfsali við og maður gengur að því er virðist út úr sjálfsalanum, en er í raun málaður nákvæmlega eins og sjálfsali ( sjá mynd hér að ofan – smelltu til að sjá hana stærri ).

Sá sem leikur manninn sem er málaður eins og sjálfsali heitir Rob Riggle, en hann leikur í raun tvö hlutverk í myndinni, tvíbura, sem ásamt lævísri konu í framhjáhaldi, reyna að finna Harry og Lloyd eftir að þeir bjánarnir flækjast inn í erfðasvikamál þeirra. Annar tvíburinn er sérfræðingur í dulargervum, og er svo fær í því að hann getur gert sig nær ósýnilegan.

Það skemmtilega við þetta atriði er að það er ekki búið til í tölvu eftir á, heldur er sjálfsalinn málaður á Riggle í alvörunni. „Fyrst prófuðum við að sauma kartöfluflögupoka á jakka, sem er mjög Dumb and Dumber-legt,“ sagði hönnuðurinn Aaron Osborne í samtal við Entertainment Weekly. „Ég vildi að ég ætti mynd af því, það var fáránlegt. Við fengum milljón hugmyndir áður en við ákváðum einfaldlega að mála þetta á hann.“

Kvikmyndagerðarmennirnir réðu líkamsmálunarlistamanninn Carolyn Roper til að mála Riggle í nokkrum atriðum myndarinnar, þar á meðal í atriðinu sem fylgir þessari grein. „Í raun var sjálfssalinn fullkominn fyrir þetta,“ sagði Roper. „Best er að hafa flókinn bakgrunn. Því flóknari því betra. “

Það tók Roper um sjö klukkutíma að mála Riggle.

„Ég passaði mig að drekka nóg,“ sagði Riggle, um hvernig hann þoldi þessa löngu vinnu. „Og ekki gleyma því að ég var í sjóhernum og þar lærði maður að standa lengi í liðskönnunum og ég kunni nokkur trikk.“