Farðu sjálf/ur í ormagöng

Það er einfaldara en maður heldur að fara sjálfur í heimsókn til þeirrar fjarlægu ísplánetu sem söguhetjurnar í nýjustu mynd Christopher Nolan, Interstellar, fara til í gegnum ormagöng í geimnum. Nóg er að setjast upp í bíl og keyra í átt að Svínafellsjökli eins og CNN Travel bendir á í ítarlegri úttekt sinni á ekki aðeins tökustað Interstellar hér á landi, heldur einnig á tökustöðum nokkurra annarra mynda hér á landi, eins og Prometheus og Noah. 

interstellar-screenshot-ice-planet

Eins og segir í greininni þá valdi Nolan þann kost að taka upp á Svínafellsjökli í staðinn fyrir að eyða offjár í að búa umhverfið til í tölvu.

Eins og segir í greininni þá er um að ræða aðeins fimm klukkustunda akstur eftir þjóðvegi eitt til að komast að þessum framandlega stað, sem í augum Nolan er fullkominn sem pláneta í öðru stjörnukerfi.

Blaðamaður CNN vitnar til þess að 350 manna tökulið og leikarar hafi gist á Hótel Skaftafelli meðan á tökum stóð í tvær vikur í september 2013 og segir að starfsmaðurinn í móttökunni sé greinilega orðinn vanur stjörnufansinum á hótelinu. „Við erum búin að fá fullt af þeim [stjörnunum]. Það er alltaf verið að taka upp hérna.“

Blaðamaðurinn fer síðan ásamt fylgdarliði og leiðsögumanni upp á jökulinn og segir frá ferð sinni í smáatriðum.

„Þau tóku allan jökulinn frá fyrir sig þegar ferðamannatímabilið var enn í hámarki,“ sagði Tomas, leiðsögumaðurinn, við fréttamannninn í greininni.“Þeir byggðu eigin vegi til að aka ökutækjum sínum upp á jökulinn, og komu jafnvel með geimskip.“

Nú, segir í fréttinni, er eins og enginn hafi nokkurn tímann verið á jöklinum, öll vegsummerki eru horfin, eins og jökullinn hafi gleypt þau.