Hobbitinn er heimsins dýrasta mynd

THE HOBBIT: AN UNEXPECTED JOURNEYÞríleikur leikstjórans Peter Jackson um Hobbitann eftir J.R.R. Tolkien, er líklegast orðin dýrasta kvikmyndaverkefni kvikmyndasögunnar.

Þríleikurinn nær hámarki um næstu jól með frumsýningu síðustu myndarinnar í seríunni, The Battle of the Five Armies. Kostnaður við myndirnar er talinn vera um 464 milljónir Sterlingspunda, eða jafnvirði um 90,9 milljarða íslenskra króna.

Upphæðin var gefin upp í skjölum í Nýja Sjálandi þar sem myndin var tekin upp, eins og The Guardian segir frá, en framleiðslufyrirtækið Warner Bros hefur neitað að tjá sig um kostnaðinn.

Myndirnar þrjár voru allar teknar upp samtímis. Fyrri methafi er myndin Pirates of the Caribbean: At World’s End, sem kostaði 185 milljónir punda, eða jafnvirði 36,2 milljarða íslenskra króna.

Warner Bros hefur þó fengið eitthvað af peningunum til baka í formi skattaendurgreiðslu frá nýsjálenskum stjórnvöldum, eða 75 milljónir punda, jafnvirði 14,7 milljarða íslenskra króna.

Endurgreiðslurnar hafa náð að lokka ýmsa fleiri kvikmyndaframleiðendur til landsins, nú síðast James Cameron með næstu þrjár Avatar myndir.