Ný sólkerfi á Íslandi

Eyðilendi á Íslandi er sögusvið nýrrar stuttmyndar eftir pólska leikstjórann Tomek Baginski. Myndin ber heitið Ambition og fjallar um meistara og lærling sem búa yfir kröftum sem gera þeim kleift að skapa ný sólkerfi.

Game of Thrones-leikarinn Aidan Gillen fer með hlutverk meistarans og hin unga og efnilega leikkona Aisling Franciosi fer með hlutverk lærlingsins.

Myndin var tekin upp að hluta til á Njarðvíkurheiði og voru hátt í 40 Íslendingar sem komu að verkefninu. Myndin er samstarfsverkefni pólska framleiðslufyrirtækisins Platige Image og Geimvísindastofnun Evrópu.

1205431_Ambition

Ambition er gerð vegna rannsóknar á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko en geimfarið Rosetta var skotið á loft 2. mars árið 2004 og fór á braut um halastjörnuna 6. ágúst síðastliðin. Með í för er lítið lendingarfar sem á að lenda á halastjörnunni hinn 12. nóvember 2014. Er þetta í fyrsta sinn sem tilraun verður gerð til að lenda á halastjörnu.

Hér að neðan má sjá þessa metnaðarfullu mynd sem gerir mikið fyrir augað.