Vampíran búin að borga sig

Dracula Untold er vinsælasta bíómyndin utan Bandaríkjanna eftir sýningar síðustu helgi, og slær þar með við bæði spennutryllinum Gone Girl og hrollvekjunni Annabelle. Tekjur myndarinnar utan Bandaríkjanna nema 33,9 milljónum Bandaríkjadala yfir helgina alla.

Myndin er jafnframt í öðru sæti yfir vinsælustu myndir í Bandaríkjunum eftir helgina, á eftir Gone Girl.

ddadad

Gerð Dracula Untold kostaði 70 milljónir dala, og er myndin nú þegar komin í plús, en samanlagðar tekjur myndarinnar nema nú 86,1 milljón dala. Myndin, sem var frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina, hefur verið sýnd í á aðra viku víða utan Bandaríkjanna. Á meðal landa þar sem myndin fór rakleiðis á toppinn eru Rússland, Taívan og Perú.

Af öðrum bíómyndum sem gengur vel utan Bandaríkjanna má nefna að Guardians of the Galaxy var frumsýnd í Kína um nýliðna helgi og fór þar beint á toppinn með tekjur upp á 26,6 milljónir dala, sem þýðir að þetta er þriðja besta frumsýningarhelgi bíómyndar frá Disney í Kína, en myndirnar tvær sem eiga tekjuhæstu frumsýningarhelgarnar eru Iron Man 3 og Captain America: The Winter Soldier.

Guardians of the Galaxy hefur nú þénað samanlagt 687 milljónir dala af sýningum um allan heim.

Í Dracula Untold er hin þekkta goðsögn Brams Stoker, Drakúla greifi, komin í glænýjan og svalari búning. Um er að ræða upphafssögu þar sem hinn þekkti prins Vlad frá Transylvaníu er sýndur í ljósi gallaðrar hetju í stað drungalegu skepnunnar sem flestum er kunnug.

Myndin segir frá því þegar Vlad neyðist til þess að hætta á eilífa bölvun til að bjarga eiginkonu sinni og syni úr klóm tyrkneskra hermanna. Við tekur æsispennandi atburðarás þar sem myrkir galdrar, stríð og harmleikur tekur við. Hinn eitilharði Luke Evans (Fast & Furious 6) fer með titilhlutverkið og til gamans má geta að Þorvaldur Davíð Kristjánsson (Svartur á leik, Vonarstræti) fer einnig með hlutverk í myndinni.

Sjáðu stiklu úr Dracula Untold hér fyrir neðan: