Kom til greina sem leikstjóri Star Wars

davidfincherFramleiðslufyrirtækin LucasFilm og Disney leituðu vel og lengi að leikstjóra fyrir sjöundu Star Wars-myndina. Margir komu til greina þar til J.J. Abrams kom til sögunnar og var markmiðið að finna leikstjóra sem gæti blásið nýju lífi í þessa klassísku seríu.

Á meðan leitinni stóð var m.a. fengið leikstjórann David Fincher á fund. Fincher hefur gert myndir á borð við Seven, Fight Club og The Social Network og fannst honum nokkuð skrítið að vera einn af þeim leikstjórum sem komu til greina.

,,Ég talaði við forseta Lucasfilm, Kathleen Kennedy,“ sagði Fincher við tímaritið Total Magazine og hélt áfram ,,Uppáhalds Star Wars-myndin mín hefur alltaf verið Empire Strikes Back. Þetta er slungið. Ef ég hefði viljað gera eitthvað í líkingu við það þá hefðu aðdáendur kannski viljað sjá eitthvað allt annað,“.

Fincher segist einnig horfa á Star Wars frá sjónarhóli vélmennanna C-3PO og R2-D2.

,,Þeir eru þrælar sem fara á milli eigenda og við fylgjumst með hversu mannskepnan er gölluð, mér fannst það vera skemmtileg nálgun, en það glataðist alveg í Return of The Jedi.“ var einnig haft eftir Fincher, en fyrir þá sem ekki vita þá vann Fincher sem aðstoðartökumaður við gerð Return of The Jedi.

Nýjasta kvikmynd leikstjórans, Gone Girl, verður frumsýnd vestanhafs þann 3. október næstkomandi. Með aðalhlutverk í myndinni fara Ben Affleck og Rosamunda Pike.