Frumsýningargleði Örvarpsins

Annað tímabil Örvarpsins hófst nú í vetur og var opnað fyrir umsóknir 2. september s.l. og slær Örvarpið til frumsýningargleði á Stofunni á fimmtudaginn (2. október), kl. 21.00.

Örvarpið er örmyndahátíð RÚV á netinu þar sem valin verður ein mynd vikulega inn á hátíðina til birtingar á vefnum, sjá www.ruv.is/orvarpid.

Örmyndin, Kjöt, keppir á hátíðinni

10 myndir verða birtar í heildina út haustið og verður fyrsta myndin birt fimmtudaginn 2. október á vefsvæði Örvarpsins. Í tilefni frumsýningar á fyrstu mynd hátíðarinnar, mun Örvarpið slá til fagnaðar á Stofan kaffihús kl. 21.00 á fimmtudagskvöldinu, þar sem frumsýningarmyndin verður sýnd, auk örmyndarinnar Kjöt eftir Heimi Gest Valdimarsson, sem hlaut Örvarpann eftir fyrsta tímabil ÖRvarpsins á glæsilegri hátíð Bíó Paradís í mars s.l. Að auki verður sýnd örmyndin sem hlaut áhorfendaverðlaun Örvarpsins í Bíó Paradís, myndin Ehos – Who Knew eftir Einar Baldvin Arason.

Allar þær 10 myndir sem taka þátt í Örvarpinu í haust verða svo sýndar á örmyndahátíð Örvarpsins í Bíó Paradís og munu keppa um Örvarpann og mun sérstök dómnefnd velja þar örmynd ársins. Sú mynd sem hlýtur Örvarpann fær vegleg verðlaun frá Nýherja, umboðsaðila Canon á Íslandi, auk þess sem sérstök áhorfendaverðlaun verða veitt eftir áhorfendakosningu sem einnig fá vegleg verðlaun.