Aukning á kvenkyns leikstjórum á Íslandi

164756_486540367712_6452053_nÁ þriðjudaginn næstkomandi verða sýndar sjö stuttmyndir á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF. Athygli vekur hversu mikil aukning er á kvenkyns leikstjórum, en konur eru með helminginn af þeim myndum sem sýndar eru í íslenska stuttmyndapakkanum á hátíðinni.

,,Kvenfyrirmyndir í kvikmyndagerð eru mikilvægar og þeim er að fjölga með velgengni kvenleikstjóranna okkar. WIFT á Íslandi hefur líka verið áberandi í að vekja athygli á konum í kvikmyndagerð og unnið að því að leiðrétta það misvægi sem er á milli kynjanna í kvikmyndabransanum.“ segir Marzibil Sæmundardóttir sem sýnir stuttmyndina Einhyrningurinn á hátíðinni.

Marzibil hefur verið viðloðandi kvikmyndagerð frá árinu 2009 og m.a. gert það gott með stuttmyndinni Freyja, en sú mynd var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Marzibil hefur einnig verið að vinna að heimildarmynd um regnbogamanninn „Bear“ og var með stuttmyndina Jón Jónsson á RIFF á síðasta ári.

Að þessu sinni sýnir hún svarta tragíkómedíu sem er umvafin blæ töfraraunsæis. Sagan segir frá Símoni sem er staddur á hvíldarheimili með Pétri stuðningsfulltrúa sínum og þarf að rifja upp þá örlagaríku atburði sem leiddu hann þangað.

unnamed

Með aðalhlutverk í myndinni fer Davíð Guðbrandsson og í aukahlutverkum eru Hannes Óli Árnason og Baltasar Breki Baltasarsson.

,,Ég valdi leikarana eins og alltaf, út frá hvernig ég hef hugsað mér karakterana og hvaða tilfinningu ég fæ fyrir þeim í hlutverkinu. Ef það smellur saman þá veit ég að þetta er réttur aðili fyrir hlutverkið. Hefur virkað hjá mér hingað til. Þeir eru allir frábærir í sínu hlutverki.“ segir Marzibil um leikaravalið.

Einhyrningurinn verður sýnd ásamt sex öðrum stuttmyndum í Tjarnarbíó kl 18:00 á þriðjudaginn, 30. september. Eftir sýningu munu leikstjórar sitja fyrir svörum áhorfenda. Hægt er að nálgast miða á sýninguna hér, og hér má skoða atriði úr myndinni.