Tarantino tekur í True Grit umhverfi

Eins og aðdáendur bandaríska kvikmyndaleikstjórans Quentin Tarantino vita, þá hefur hann haft í nógu að snúast á árinu, en hann hóf vinnu við nýjustu mynd sína The Hateful Eight á þessu ári.  Á tímabili hugleiddi Íslandsvinurinn að hætta alfarið við verkefnið þegar handritinu var lekið á netið, en hætti svo við það og ætlar nú að frumsýna myndina á næsta ári.

DJANGO UNCHAINED

Enn er óvíst með hvaða leikarar koma fram í myndinni en menn spá því að meðal leikenda verði menn sem eru vel þekktir úr fyrri myndum kappans, menn eins og Kurt Russell og Samuel L. Jackson, en þeir hafa áður leiklesið handritið opinberlega.

Orðrómur er um að Jennifer Lawrence og Viggo Mortensen bætist í hópinn einnig, en talið er líklegt að leikarahópurinn verði í fámennari kantinum.

Dagblaðið The Denver Post segir nú frá því að myndin verði alfarið tekin upp í Denver í Colorado í Bandaríkjunum þar sem fylkið hefur styrkt framleiðsluna um 5 milljónir Bandaríkjadala, og þar með boðið betur en bæði Utah og Wyoming. Blaðið bendir á að þar með verði myndin sú stærsta sem tekin hefur verið upp í fylkinu síðan að 1969 útgáfan af John Wayne vestranum True Grit var tekin þar. Einnig er talað um að myndin verði tekin á sömu stöðum og einn af þekktustu vestrum kvikmyndsögunnar, en ekki er getið um hver það er – hugsanlega er verið að vísa þar til True Grit.

Og þar sem búið er að ákveða tökustaðina þá er Tarantino núna að undirbúa tökur sem fram fara 8. desember nk. á Schid búgarðinum, en það er rúmlega mánuði fyrr en áður var talið að tökur myndu hefjast, eða 15. janúar.

Fyrst að tökur eru þetta skammt undan er ekki ólíklegt að fréttir af leikaravali fari að birtast fljótlega.

Kostnaðaráætlun fyrir myndina hljóðar upp á 44 milljónir Bandaríkjadala, sem er talsvert lægri upphæð heldur en áætlanir fyrir tvær síðustu myndir Tarantino hljóðuðu upp á, þær Django Unchained og Inglourious Basterds.

Eins og fyrr sagði er von á myndinni á næsta ári, 2015.