Gordon-Levitt leikur Snowden

joseph-gordon-levittLeikarinn Joseph Gordon-Levitt mun fara með hlutverk bandaríska uppljóstrarans Edward Snowden í nýrri mynd frá leikstjóranum Oliver Stone. Vefmiðill Variety greinir frá því að leikarinn hafi tekið við hlutverkinu, en að samningar séu ekki í höfn.

Myndin hefur fengið nafnið The Snowden Files og verður að hluta til gerð eftir bókinni Time of the Octopus eftir Anatoly Kucherena. Stone mun skrifa kvikmyndahandritið eftir bókinni og mun að öllum líkindum framleiða myndina.

Gordon-Levitt, sem lék síðast í Sin City: A Dame To Kill For, er einn eftirsóttasti ungi leikarinn í Hollywood. Meðal kvikmynda sem leikarinn hefur leikið í má nefna The Dark Knight Rises, 50/50 og Inception.

Edward Snowden verður eflaust minnst sem einn helsti uppljóstrari 21. aldar en mál hans komust í hámæli þegar upp komst að hann hafði lekið upplýsingum til fjölmiðla um persónunjósnir breskra og bandarískra yfirvalda.