Richard Kiel látinn

Hávaxni leikarinn Richard Kiel, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem illmennið Jaws í James Bond-myndunum The Spy Who Loved Me og Moonraker, er látinn 74 ára að aldri. Leikarinn fótbrotnaði fyrir stuttu og var lagður inn á sjúkrahús í Fresno í Kaliforníu. Sam­kvæmt frétt Hollywood Reporter hef­ur banamein hans þó ekki verið staðfest.

the-spy-who-loved-me-jaws-richard-kiel

Persónan Jaws var það vinsæl á meðal áhorfenda að hún var lífguð við í Moonraker. Kiel þótti fara með hlutverkið af mikilli snilld og skemmdi hæð hans svo sannarlega ekki fyrir, en Kiel var 2.18 metrar að hæð.

Kiel lék í mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum yfir ferilinn og má þar helst nefna hlutverk hans sem yfirmaður golfarans Happy Gilmore í samnefndri gamanmynd frá árinu 1996. Kiel fór einnig með hlutverk í þáttum á borð við Twilight Zone, Barbary Coast og Lassie.