Nýir sjónvarpsþættir byggðir á kvikmynd Martin Scorsese

Það hefur færst í aukana að sjónvarpsstöðvar framleiði þætti út frá kvikmyndum. Má þar helst nefna nýja þætti á borð við Fargo, About a Boy og Rosemary’s Baby.

Að þessu sinni verða sjónvarpsþættir gerðir út frá spennumyndinni Shutter Island, sem kom út árið 2010. Myndinni var leikstýrt af Martin Scorsese og fóru Leonardo DiCaprio og Mark Ruffalo með aðalhlutverkin.

shutter_island (3)

Myndin er upprunalega byggð á bók eftir Dennis Lehane og gerist árið 1954 þar sem tveir lögreglumenn rannsaka hvarf morðkvendis sem slapp af geðsjúkrahúsi fyrir glæpamenn.

Þættirnir verða sýndir á sjónvarpsstöðinni HBO og mun sjálfur Scorsese leikstýra fyrsta þættinum, en hann mun einnig framleiða þættina ásamt DiCaprio.

Líkt og í öðrum sjónvarpsþáttum sem eru gerðir út frá kvikmyndum þá má búast við því að nýir leikarar stígi á stokk í aðalhlutverkunum. Framleiðsla er á byrjunarstigi og hefur því ekki verið staðfest hverjir munu fara með hlutverk í þáttunum.