Verndarar vekja lukku

guardiansOfurhetjumyndin Guardians of the Galaxy trónir á toppi lista verslunarmannahelgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Myndin var frumsýnd í síðustu viku og hefur m.a. bætt aðsóknarmet í Bandaríkjunum.

Myndin er byggð á samnefndum teiknimyndasögum frá risanum Marvel og fjallar um verndara Vetrarbrautarinnar. Segja má að ofurhetjurnar sem þar eiga sviðið séu nokkurs konar geimútgáfur af The Avengers-ofurhetjunum. Þetta eru þau Peter Quill, öðru nafni Star-Lord, sem leiðir hópinn og er leikinn af Chris Pratt, hin græna Gamora sem Zoe Saldana leikur, drumburinn Groot sem leikinn er af Vin Diesel, Drax the Destroyer sem Dave Bautista leikur og hinn ofursvali Rocket sem Bradley Cooper leikur

Gamanmyndin Sex Tape situr síðan í öðru sæti listans. Í myndinni fara þau Cameron Diaz og Jason Segel með hlutverk pars sem lendir í því óskemmtilega atviki að kynlífsmyndband af þeim sendist til nánustu vina og ættingja. Þurfa þau því að gera allt í sínu valdi til þess að eyða myndefninu hjá viðkomandi einstaklingum.

Í þriðja sæti er enginn annar en Hercules. Fyrrum glímukappinn, Dwayne „The Rock“ Johnson, fer með titilhlutverkið. Í myndinni hefur Hercules snúið við blaðinu og vill einungis lifa í friði með fjölskyldu sinni, en þegar fjölskyldan hans er myrt þá þarf hann að finna sjálfan sig á ný og berjast gegn illum verum.

Screen Shot 2014-08-05 at 10.45.44 PM