Vönduð heimildarmynd um tölvuleiki væntanleg

Framleiðslufyrirtækið Variance Films, í samstarfi við leikarann og framleiðandann Zach Braff, opinberuðu í dag fyrstu stikluna úr heimildarmyndinni Video Games: The Movie.

Heimildarmyndin fer vítt og breitt yfir sögu tölvuleikja og hvernig tölvuleikir verða í framtíðinni. Tölvuleikir hafa nú þegar tekið fram úr öðrum rótgrónari greinum skemmtanaiðnaðarins. Velta í greininni er tvöföld á við tónlistariðnaðinn, fjórðungi meiri en í útgáfu tímarita og um 60% kvikmyndaiðnaðarins þegar miðasala kvikmyndahúsa og tekjur af mynddiskum eru taldar saman.

videogame

Tölvuleikjaheimurinn stækkar og stækkar með hverju árinu sem líður og eins og segir í stiklunni þá hafa tölvuleikir farið úr spilasölunum og stigið fram á heimssviðið og í sumum löndum eru þeir sem þykja hvað bestir í sportinu oft metnir á við fótboltastjörnur. Fólk fyllir heilu íþróttasalina til þessa eins að bera goðin augum og minnir þetta oft á stóra íþróttaviðburði.

Stórfyrirtæki hafa þegar rankað við sér og séð gróða í að styrkja helstu lið í tölvuleikjum og eru þúsundir tölvuleikjaiðkenda á launum allan ársins hring. Þetta hafa fyrirtækin gert útaf því tölvuleikjamót eru oft með yfir hundruði milljóna íslenskra króna í verðlaunafé.

Myndinni er leikstýrt af Jeremy Snead og verður frumsýnd vestanhafs þann 18. júlí næstkomandi. Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.