Baltasar orðaður við 'Reykjavík'

Baltasar Kormákur er í viðræðum um að leikstýra kvikmyndinni Reykjavík, myndin mun fjalla um fund Ronald Reagan og fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna, Mikhail Gorbachev, sem átti sér stað í Reykjavík árið 1986. Eins og flestir vita er um að ræða nokkurs konar sáttafund leiðtoganna á hápunkti kalda stríðsins.

reykjavik

Verkefnið hefur verið á dagskrá í nokkurn tíma og hafa leikstjórar á borð við Ridley Scott og Mike Newell verið orðaðir við myndina.

Bandaríski leikarinn Michael Douglas hefur verið fengin til þess að túlka Reagan, en óvíst er hver mun fara með hlutverk Gorbachev. Austurríski leikarinn Christopher Waltz hefur þó verið orðaður við hlutverkið.

Það er alls ekkert leyndarmál að við Íslendingar séum eflaust aðeins spenntari en aðrir fyrir framleiðslu Reykjavík. Ekki aðeins er þetta stór hluti af sögu höfuðborgarinnar heldur þýðir þetta einnig að við séum líklegast að fara fá heimsókn frá fleiri Hollywood-stjörnum og tekjur í ríkiskassann.

Baltasar lauk nýlega tökum á kvikmyndinni Everest, með þeim Jake Gyllenhaal og Josh Brolin í aðalhlutverkum. Everest er byggð á sannsögulegum atburði, þegar átta fjallgöngumenn fórust í aftakaveðri á hæsta fjalli jarðar, Everest, 11. maí árið 1996 en það er eitt af mannskæðustu slysum sem orðið hefur á fjallinu.