Hross í oss fær 8 milljóna verðlaun á San Sebastián

Íslenska kvikmyndin Hross í oss í leikstjórn Benedikts Erlingssonar hlaut hin eftirsóknarverðu Kutxa-New Directors verðlaun í New Directors flokknum á San Sebastián kvikmyndahátíðinni sem fór fram í Donostia-San Sebastián á Spáni og lauk við hátíðlega athöfn nú í kvöld.

hross í oss

Þetta eru einu verðlaunin sem eru veitt í þessum flokki hátíðarinnar og hljóða þau upp á 50.000 evra, eða um 8,2 milljónir íslenskra króna, sem er með hæsta verðlaunafé sem hægt er að hljóta á kvikmyndahátíðum, að því er segir í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Vinningshafi deilir verðlaunafénu með spænskum dreifiaðila, sem þýðir jafnframt að Hross í oss hefur verið tryggð dreifing á Spáni.

Vegferð Hrossa í oss heldur því áfram, en nýverið tilkynnti Íslenska sjónvarps- og kvikmyndaakademían að myndin yrði framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2014. Næst á dagskrá er svo þátttaka í keppni á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tókýó, en sú hátíð fer fram dagana 17. – 25. október.

„Bæði San Sebastián kvikmyndahátíðin og alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Tókýó flokkast til svokallaðra „A“ hátíða, en þær eru einungis 14 í heiminum. Að hljóta verðlaun sem Kutxa-New Directors verðlaunin er því mikill heiður,“ segir í tilkynningunni.

Hross í oss er grimm sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum. Ást, kynlíf, hross og dauði fléttast saman með skelfilegum afleiðingum. Örlagasögur af fólki í sveit frá sjónarhól hestsins.

Hross í oss var frumsýnd hér á landi 30. ágúst og er ennþá til sýninga í kvikmyndahúsum.