Ný Bourne mynd á leiðinni

Bandaríska myndverið Universal Pictures er að fara af stað með fimmtu myndina í The Bourne Identity seríunni. Samkvæmt heimildum Deadline vefjarins þá hefur myndverið ráðið Anthony Peckham til að skrifa handrit að kvikmynd sem myndi verða framhald á sögunni um Aaron Cross, persónunni sem Jeremy Renner lék í Bourne Legacy frá árinu 2012  sem leikstýrt  var af Tony Gilroy.

Cross var einn af útsendurunum sem tóku þátt í Outcome áætluninni. Áætlunin gekk út á að gera útsendarana að einskonar ofurnjósnurum með lænisfræðilegum aðferðum, bæði líkamlega og andlega, en síðar átti að koma þeim öllum fyrir kattarnef.

BourneLegacy-Thumb

Ásamt Renner lék Rachel Weisz og Edward Norton í Bourne Legacy.

Þó að þessi nýja mynd sé einungis í startholunum enn sem komið er þá er talið að myndverið vilji halda áfram að byggja upp þessa hliðarpersónu, Aaron Cross, og halda áfram með söguþráðinn sem Tony Gilroy vann upp úr sögunni sem var undirstaðan að vinsældum Jason Bourne sem Matt Damon lék í þremur myndum, sem gerðar voru eftir skáldsögum Robert Ludlum. 

Damon er líklega ekki að koma aftur inn í seríuna, enda hefur hann sagt að hann vilji ekki koma aftur nema leikstjórinn Paul Greengrass sem leikstýrði fyrstu Bourne myndunum þremur, mæti aftur.

Bourne serían er ein stærsta og mikilvægasta sería Universal. The Bourne Legacy, þénaði 276 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu.