Frumsýning: Safe Haven

Sena frumsýndir myndina Safe Haven á föstudaginn næsta, þann 22. mars í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.

Myndin fjallar um unga konu á flótta sem finnur skjól í litlum bæ þar sem hún tekur sér nýtt nafn og verður ástfangin. En fortíðin eltir hana uppi.

Það eru þau Julianne Hough og Josh Duhamel sem fara með aðalhlutverkin í þessari nýjustu mynd sænska leikstjórans Lasse Hallström sem á að baki margar perlur, svo sem What’s Eating Gilbert Grape, The Cider House Rules, Chocolat, Dear John og Salmon Fishing in the Yemen, svo einhverjar séu nefndar af mörgum góðum.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Myndin hefst í Boston. Ung kona, Erin að nafni, er á harðahlupum undan einhverjum, berfætt í rigningunni og skelfingu lostin. Henni tekst að komast naumlega undan þeim sem eltir hana með því að stökkva upp í rútu. Við hittum Erin aftur þar sem hún hefur komið sér fyrir í smábænum Southport í Norður-Karólínuríki þar sem hún hefur tekið sér nafnið Katie. Þar kynnist hún m.a. ekklinum og einstæða, tveggja barna föðurnum Alex sem verður þegar hrifinn af henni. Katie telur sig hins vegar ekki geta byrjað í nýju sambandi vegna fortíðar sinnar sem hún vill fyrir alla muni halda leyndri. En Alex er hrífandi maður og svo fer að Katie lætur undan tilfinningum sínum í hans garð þótt hún viti að hún gæti hvenær sem er þurft að leggja á flótta á ný …

 

Leikstjóri: Lasse Hallström.

Handrit: Leslie Bohem og Dana Stevens.

Aðahlutverk: Julianne Hough, Josh Duhamel og David Lyons.

Frumsýnd: 22. mars.

Hvar: Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.

Fróðleiksmoli til gamans: 

Safe Haven er byggð á einni af bókum metsöluhöfundarins Nicholas Spark sem skrifaði einnig bækurnar The Notebook, Dear John, Message in a Bottle, A Walk to Remember og The Lucky One, en þær hafa allar verið kvikmyndaðar með góðum árangri.