Óskarsverðlaunahöfundur skrifar fyrir Wachowski systkinin

Tónskáldið Michael Giacchino er sérstaklega lagið við að semja tónlist fyrir kvikmyndir í vísindaskáldsagnastíl. Til dæmis samdi hann tónlist fyrir Star Trek Into Darkness, John Carter og Super 8, og nú er hann kominn með rétt eina vísindaskáldsöguna á sitt borð.

Samkvæmt tónlistarvefsíðunni FilmMusicReporter.com þá hefur Giacchino verið ráðinn til að semja tónlist við næstu mynd Wachowski systkina, Jupiter Ascending með þeim Channing Tatum, Mila Kunis, Eddie Redmayne, Douglas Booth og Sean Bean í helstu hlutverkum.

Um handrit, leikstjórn og framleiðslu sjá þau Andy og Lana Wachowski, en myndin er vísindaskáldsöguævintýri sem fjallar um það hvernig heimurinn liti út ef mannkynið væri minnst þróaða tegundin á jörðinni.

Við sögðum fyrst frá myndinni hér á kvikmyndir.is árið 2011.

Kunis mun eiga að leika þernu sem neyðist til að leggja á flótta þegar hún er grunuð um að ógna Drottningu alheimsins, og Tatum leikur geimveru-hausaveiðarann sem eltir hana.

Giacchino vann Óskarsverðlaunin árið 2009 fyrir Up, og er best þekktur fyrir tengsl sín við bæði Pixar og Bad Robot framleiðslufyrirtækin.

Tónskáldið hefur áður unnið með Wachowski systkinunum, en hann samdi tónlistina við mynd þeirra Speed Racer frá árinu 2008.

Áhugasamir geta lagt við hlustir og heyrt tónlist hans þegar Star Trek Into Darkness kemur í bíó 17. maí nk.