Tilfinningarússíbani

to the moon Ef það er eitthvað sem margir leikir nú til dags gleyma er það að vel skrifuð saga og flott tónlist getur haldið leik uppi, þrátt fyrir það að hafa ekkert það sérstaka stýringu. Leikur sem gerir þetta einna best er nýjasti leikurinn frá Freebird Games Indie leikjafyrirtækinu. To The Moon er ekki beint hægt að kalla leik en hann hefur smá RPG sjarma við sig. Leikurinn gefur manni magnað nostalgíuspark með því að vera í klassísku 16bit útliti. Þú stýrir vísindamönnunum Wyatt og Rosaleane. Þeir vinna við það að gefa fólki, sem er við það að fara undir græna  torfu tækifæri á að upplifa þeirra síðustu ósk, en bara í huganum. Þú færð það verkefni að hjálpa deyjandi manni að nafni John að komast til tunglsins. Til þess að gera það þarftu að fara í gegnum stóran hluta ævi hans og ná í 5 minningar frá hverju æviskeiði fyrir sig. Þegar þú ert búinn að ná í allar þessar minningar bíður þín alltaf einföld þraut.

Eins og ég sagði þá er það ekki spilunin sem mun grípa þig. Það sem dregur þig inn í þennan æðislega leik er sagan, meðan þú ert að fara í gegnum minningar Johns færðu að sjá ástarsamband hans og konu hans, hvernig þau kynntust og allt sem þau gerðu. Tveir aðal karekterarnir sem þú stjórnar eru líka æðislegir. Wyatt á það til að koma með heimskulegustu setningar sem annað hvort láta þig vilja slá hann eða springa úr hlátri. Rosaleane er alvarlegri og heldur þér aðeins meira á jörðinni í þessari ferð. Samtölin milli þeirra eru æðisleg og gefa það vel í skyn að þau hafa gengið í gegnum margt saman.

Útlit leiksins er gullfallegt og tekst alltaf að sýna þá tilfinningu sem á að vera í gangi í leiknum með hjálp flottrar tónlistar en ég hef ekki heyrt jafn flotta tónlist í tölvuleik síðan Monkey Island 2. Með þessu blandað inn í æðislegustu sögu sem ég hef séð í langan tíma þá máttu búa þig undir 6 tíma tilfinningarússíbana. Saga leiksins mun grípa þig og leyfir þér að sjá hvernig það er að ganga í gegnum allar minningar þínar bæði þær góðu og slæmu.


(8/10)