Endurlit: The Dark Knight

Jahá! Talandi um að „levela upp“ mynd sem var þegar býsna kjörkuð og setti alveg nýjan standard fyrir það sem myndasögukvikmyndir gætu orðið ef snjallir, hugmyndaríkir fagmenn fá að leika sér með þekktan efnivið. Flestir kvikmyndagerðarmenn yrðu satt að segja bara nokkuð sáttir með að hafa flotta mynd á ferilskránni eins og Batman Begins, en The Dark Knight er ekki lengi að senda út þau skilaboð að sú mynd var bara upphitunin að einhverju miklu, miklu betra og bitastæðara.

Á þessu stigi get ég ekki annað en vorkennt þeim Tim Burton og Joel Schumacher. Eftir að virðulegi Bretinn hann Christopher Nolan (sá allra skarpasti í Hollywood-stórmyndum í dag) steig fram með sína eigin útgáfu af Leðurblökumanninum breyttist gjörsamlega allt til hins betra. Þurrkaði hann hér um bil fyrri myndirnar út af korti kvikmyndasögunnar með því að kaffæra þeim duglega ofan í sand og traðka ofan á þær með bros á vör. Fyrst með stolti og sjálfsöryggi árið 2005 og síðan með krafti og hreinum meistaratöktum þremur árum seinna.

Stór hluti af fólki í heiminum er einfaldlega morandi í heimskingjum og það útskýrir af hverju svona stórsnjallar blockbuster-myndir eru annaðhvort sjaldséðar eða í útrýmingarhættu. Sem kvikmyndaáhugamaður hoppa ég hreinlega hæð mína – frussandi úr gleði – þegar einhverjum tekst að búa til ótrúlega vandaða (hasarblaða)kvikmynd sem bæði krefst heilabrota og rokkar í skemmtanagildi. Ansi oft er reynt að forðast það að troða fullmiklu innihaldi í bíómyndir sem  gefnar eru út á sumartíma því það venjulega þýðir að megnið af áhorfendum heimsins munu detta út úr henni – ekki síst allir krakkarnir sem koma bara til að sjá yfirdrifinn hetjuhasar. Ég get ekki annað en elskað það að búa í heimi þar sem til eru ofurhetjumyndir sem börnin fíla en fullorðnir dýrka.

Sem betur fer margborgaði það sig fyrir Nolan að endurræsa goðsögnina með Batman Begins þar sem tekin var ágætis áhætta að einblína á sálfræðitengdar þemur, trúverðuga persónusköpun og drungalegan en óvenjulega raunsæjan tón. Velgengni þessarar óvæntu perlu leiddi til þess að framleiðendur leyfðu Nolan að þrepa sig upp á harðara og meira spennandi stig. Hefðbundna upphafssagan er búin og uppstillingarnar flestar að baki líka, sem gaf leikstjóranum hið ómetanlega tækifæri til þess að gera hvað sem honum sýndist með framhaldið. Helst eitthvað sem brýtur reglurnar og þá með stæl og ánægju.

Í lokin á seinustu mynd talar töffarinn Jim Gordon um stigmögnun („escalation“) í glæpaheiminum sem óhjákvæmilegar afleiðingar þess að myrki riddarinn steig fram og ögraði óvinum sínum. Alltaf þegar ég sé þessa senu hugsa ég að þarna er Nolan í rauninni að lofa áhorfendum að næsti skammtur verði stærri, erfiðari og hugsanlega miklu kaotískari. Stigmögnun er einmitt eitt af því sem Nolan leggur mikla áherslu á og stækkar hann sjóndeildarhringinn alveg umtalsvert. Handritið er t.a.m. breiðara og ófyrirsjáanlegra, söguþráðurinn töluvert þyngri, sálfræðiflækjurnar dýpri, siðfræðin athyglisverðari, hasarinn öflugri, búningurinn praktískari og Batman-röddin örlítið ýktari. Þetta síðastnefnda ætti nú reyndar að hafa skaðlegri áhrif á heildarmyndina en með svona ákaflega aðlaðandi leikhópi af vönum mönnum ásamt öruggri leikstjórn, óaðfinnanlegu meðlæti (þ.e. kvikmyndataka, tónlist, klipping o.fl.) og bíóillmenni sem á erindi í margar ólíkar sögubækur umturnast þessi litla glæpaepík í útpælt meistaraverk.

Það er hálfskrítið að segja það miðað við að hér sé um sama kvikmyndagerðarmann að ræða, en fyrir utan Inception (2010) myndi ég segja að The Dark Knight væri besta og hugrakkasta Hollywood-stórmynd sem ég hef séð síðan fyrsta Matrix-myndin var og hét. Hún er allt það sem mörgum, mörgum öðrum myndasögumyndum langar til að vera. Meira að segja myndir sem tilheyra ekki geiranum vildu óska að þær væru svona góðar. Nolan-unnendur eru reyndar alveg meðvitaðir um að þegar hann leggur sig allan fram, þá er erfitt að mótmæla því hversu gríðarlega vandaður og kærkominn afraksturinn er. Hann veit hvernig skal búa til gott bíó sem hefur stöðugan púls og tvísýna framkomu. Ef þú ert t.d. kvikmyndaunnandi er yfirleitt í boði alls konar hlaðborð af symbolisma, dýpt og spurningum sem vakna upp um leið og þær eru fundnar. Hins vegar (og þetta á sérstaklega við um Batman-myndirnar) er líka hægt að halla sér bara aftur og njóta háværrar afþreyingar ef hugarfarið er þeim megin sem spennufíkillinn er.

Sem fyrr fara engir eðalleikarar til spillis (nema, jú, kannski Cillian Murphy – sem er aftur bara settur á bið, vona ég!). Allir eru upp á sitt besta og meira til, enda býður grafalvarlega handritið upp á margs konar dramasveiflur. Christian Bale er ekki eins mikið í forgrunni hér og í fyrri myndinni en hlutverkið er engu að síður orðið kröfuharðara um leið og tilfinningalega kaosið hrekkur í gang. Bruce Wayne hefur sjaldan verið eins þjáður í bíómynd áður og Batman aldrei verið reiðari. Aukaleikarar gerast heldur ekki betri og er aldrei nokkurn tímann hægt að segja eitthvað slæmt um snillinga eins og Gary Oldman, Michael Caine og Morgan Freeman. Þeirra nærvera undirstrikar það aðeins að hér er miklu meira en bara einhver týpísk ofurhetjumynd á ferðinni og styðja þeir fullkomlega við yngra liðið í burðarrullunum. Maggie Gyllenhaal fær það erfiða verkefni að sannfæra áhorfandann um að hún sé sama persóna og Katie Holmes lék og fer hún létt með það, fyrst og fremst vegna þess að hlutverkið er betur skrifað að þessu sinni og Gyllenhaal gæti leikið betur í svefni heldur en Holmes á sínum fínasta degi. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið meðvituð ákvörðun eða ekki, en Nolan útrýmdi þarna, með einni leikaraskiptingu, einum veikasta punktinum úr Batman Begins.

Batman tók sviðsljósið í fyrri myndinni en deilir því að þessu sinni með Jókernum og Harvey Dent. Tengsl þessara þriggja og samspil er nákvæmlega það sem drífur söguna áfram og gerir hana athyglisverða. Á einum endanum er Batman, sem er tákn um reglu og réttlæti. Dent er í miðjunni og spilar með áhættu (eða mótar sína eigin gæfu, eins og hann orðar það) og lengst á öfugum endanum á móti blökunni er Jókerinn, sem trúir ekki á neitt annað en stjórnleysi og skepnuskap. Hans markmið snýst um það að hvolfa öllu því sem hinir tveir berjast fyrir og gera persónulegu líf þeirra að algjöru helvíti með því að þrýsta á réttu hnappanna. Það sem hræðir mann mest við Jókerinn er í rauninni hversu skarpur hann er og hve útpæld plönin hans eru, sem er kaldhæðnislegt þar sem hans markmið er að pissa á heiminn og valda anarkisma. Ein af traustari fléttum sögunnar (og þær eru alveg nokkrar…) er einmitt sú fyrirsjáanlegasta, þegar líf Dents tekur U-beygju og þá skyndilega farinn að snúast gegn því góða. Ekki er það á hverjum degi þar sem maður sér svona glæsilega útbúinn grískan harmleik, með fullt af sprengjum!

Það er sjálfsagður hlutur að segja að öll myndin sé í höndum Jókersins vegna þess að fyrst og fremst snýst öll sagan í kringum hann. Jókerinn hefur áhrif á líf hverrar persónu í myndinni því hann hefur fingur sína í nákvæmlega öllum skaða sem á sér stað. Prófíllinn hans er svo skuggalegur en í senn sterkur að það hefði aldrei komið til greina fyrir neinn leikara að vera annað en framúrskarandi í fimmta veldi. Dauði Heaths Ledger var nógu sorglegur þegar maður leit á hann sem ástralska sjarmörinn, en þegar maður sá fyrst hvað þessi leikari hnoðaði úr Jókernum langaði mann til að grenja eins og Ennis Del Mar gerði. Æ, þið vitið, þegar hann faðmaði gallajakkann hans Jack Twist. Svo sannarlega tókst Ledger að sýna þessum karakter fullkomið réttlæti og hér um bil stroka út þá staðreynd að Jack Nicholson var talinn eiga leiksigur í fyrstu Burton-myndinni. Nicholson var reyndar góður, en allt öðruvísi og skrípalegri. Þessi er dularfyllri, skemmdari, klárari og klikkaðri. Besta illmenni síðasta áratugar í bandarískri bíómynd. Klárt mál. Mér finnst samt örlítið leiðinlegt hvað Ledger skyggir mikið á Aaron Eckhart sem Dent. Hann er sjálfur að gefa sig allan fram í fjölbreyttustu rullunni. Yndislegur leikari og hefur aldrei verið betri en hér. Ekki hingað til að minnsta kosti.

Nolan var aldeilis ekki að djóka með það þegar hann sagðist ætla að búa til Batman-útgáfuna af löggu-og-bófa-klassíkinni Heat, því hann nær töktunum alveg dásamlega; tónalega, efnislega og útlitslega séð. Uppbyggingin og persónulega spennan sem myndast á milli vondu og góðu karlanna er eitt af mörgu sem myndirnar eiga sameiginlegt (og sakar ekki að hafa eitt stykki William Fichtner þarna inni sem lítið lukkudýr). Bankaránið í byrjuninni lyktar hvað mest af Heat, á góðan hátt, en burtséð frá því er varla hægt að biðja um safaríkari haug af frábærum atriðum. Kaflinn í lokin með ferjunum tveimur finnst mér nánast eiga að vera kenndur í siðfræðitímum og yfirheyrslusenan ein og sér er sterkari en megnið af því sem kom í bíó árið 2008. Stórkostlega leikin, snilldarlega byggð upp, taugatrekkjandi, argandi af sársauka, pirringi, reiði og fullkomin yfirlýsing á það hversu óútreiknanlegur og kexruglaður Jókerinn er. Hann er endalaust alltaf einu skrefi á undan öllum, sem – ef eitthvað – gerir geðveikina í honum óhugnanlegri.

Ég mun samt aldrei skilja af hverju Batman gargar með guðaröddinni sinni fyrir framan karaktera sem vita fullvel hver hann er undir grímunni. Umræðan um þessa blessuðu rödd er gjörsamlega endalaus, en því miður af gildri ástæðu. Á vissum tímapunktum er maður nálægt því að dragast jafnvel út úr heilum senum bara vegna þess að hetjan strekkir svo harkalega á röddböndunum (og hljómar nokkrum sinnum eins og hann sé nefmæltur og með örlítið kvef) að orðið „paródía“ svífur stundum í kringum kollinn. En aðeins vegna þess að línurnar hans eru yfirleitt nógu sterkar og leikstjórnin svo sjálfsörugg tekst að draga mann aftur inn í þessi móment.

The Dark Knight er einfaldlega bara fyrirtaks Batman-mynd fyrir fullorðna en fyrst og fremst brilliant glæpamynd sem heldur mögnuðu flugi í tvo og hálfan tíma. Engin sena er dauð eða tilgangslaus, þróun karaktera alltaf í fyrirrúmi og bilaðslega skemmtilega ofbeldið sýnir sig aldrei án þess að plottið kalli á það. Fram að þessum punkti hafði maður fengið að sjá vandlega inn í heilabúið hjá Nolan en The Dark Knight undirstrikaði bæði það sem maður þegar vissi um gáfurnar hans og frontaði þessar svakalega flottu hreðjar sem lafa svo glæsilega á milli lappanna á honum. Ég verð samt hissa ef honum tekst einhvern tímann að toppa Memento. Ég gæti allavega þurft að versla mér ný nærföt ef sá dagur kemur.


(10/10!!)