Viltu taka þátt í stuttmyndakeppni?

Stuttmyndakeppnin Stuttmyndadagar í Reykjavík fer fram í Bíó Paradís dagana 3.-4. september næstkomandi. Keppt er um bestu stuttmyndina og verða veitt þrenn verðlaun fyrir bestu myndirnar, 100.000 kr. fyrir fyrsta sætið, 75.000 kr. fyrir annað sætið og 50.000 kr. fyrir þriðja sætið. Ásamt þessu verða veitt sérstök áhorfendaverðlaun.

Verðlaunamyndir verða sýndar á RÚV í haust. Þá verður leikstjóra þeirrar myndar sem hlýtur fyrsta sætið boðið á kvikmyndahátíðina í Cannes að ári þar sem myndin öðlast þátttökurétt í Short Film Corner. Þannig að það er til mikils að vinna.

Athygli er vakin á því að myndirnar mega ekki fara yfir 15 mínútur að lengd. Þá verða innsendar myndir að notast við Íslendinga í lykilstörfum og/eða hlutverkum. Í dómnefnd Stuttmyndadaga eru eftirtaldir: Ingvar Þórðarson kvikmyndaframleiðandi, Ísold Uggadóttir (mynd hér fyrir neðan) kvikmyndaleikstjóri og Örn Marinó Arnarson kvikmyndagerðarmaður.

Stuttmyndadagar hafa verið grasrótarvettvangur íslenskra kvikmynda allt frá 1991. Þar hafa fjölmargir kvikmyndagerðarmenn, sem síðar hafa getið sér gott orð, stigið sín fyrstu spor. Má þar m.a. nefna Árna Óla Ásgeirsson, Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur, Rúnar Rúnarsson, Ragnar Bragason, Róbert Douglas, Grím Hákonarson, Reyni Lyngdal og Gunnar B. Guðmundsson.

Við hvetjum alla kvikmyndaáhugamenn til þess að taka þátt í þessari snilld. Þannig að náið í tökuvélarnar, leikara og skellið saman í handrit – það er bara gaman að taka þátt. Frestur til að skila inn myndum rennur út þann 10. ágúst. Nánari upplýsingar má finna á Stuttmyndadagar.is.