Hvað gerðist eiginlega með World War Z?

 

Allir sem fylgjast reglulega með erlendum kvikmyndafréttum vita að framleiðslan á zombie-stórmyndinni World War Z hefur í endalausum vandræðum frá því að verkefnið var tilkynnt. Eftir áralangt mall í stefnulausri handritsvinnslu var myndinni ýtt í tökur sumarið 2011 sem gengu vægast sagt hræðilega. Nú er svo komið að myndin er komin langt fram úr sinni upphaflegu fjárhagsáætlun, hefur verið frestað frá árinu í ár fram á sumarið 2013 og skipulagðar hafa verið nýjar 7 vikna langar tökur sem fram fara nú í haust. Og það sem er verulega óvenjulegt er að nýr handritshöfundur, Damon Lindelof (Lost, Prometheus), hefur verið ráðinn til þess að skrifa (kaldhæðnislega) nýjan og betri endi á myndina.

Bókin eftir Max Brooks (sonur Mel) sem myndin byggir (lauslega) á kom út árið 2006, vakti strax athygli kvikmyndaframleiðanda og tryggði fyrirtæki Brad Pitt sér kvikmyndaréttinn. Það var svo árið 2008 sem Marc Forster, nýbúinn með Bond myndina Quantum of Solace, steig um borð. Mikil spenna ríkti yfir verkefninu, og plön voru gerð um að myndin yrði sú fyrsta af þremur, en  allir þóttust vissir um að þeir hefðu mikinn gullkálf í hendi sér. Stórmynd um uppvakningafarald með Brad Pitt í aðalhlutverki. Hvernig gat það klikkað?

Nafnlausar heimildir frá tjaldabaki eru farnar að tjá sig um framleiðsluna, sem er lýst sem hreinni martröð. Marc Forster hafði fyrir utan Quantum litla reynslu við að leikstýra stórum myndum. Upphaflega planið var því að hann myndi einbeita sér að persónusköpun og söguþræði myndarinnar, og fengi reynslumikla undirmenn sem tækju að sér mesta hasarinn og brelluatriðin.

Úr varð stefnulaust skip sem stefndi í stórslys. Verkaskiptingin varð ekki til neins nema ruglings á milli þeirra sem unnu að myndinni, engin ein rödd stýrði sögunni. Reynsluleysi Forsters olli miklu ósætti, og grundvallarákvörðnum, eins og því hvernig uppvakningarnir myndu líta út og hreyfa sig, var endalaust frestað. Ekki bæti úr skák að myndinni var gefið græna ljósið áður en hún var tilbúin í tökur, og framleiðslunni flýtt til þess að hægt væri að koma henni út jólin 2012. Nú er ljóst að svo verður ekki, og Paramount mega kalla sig heppna ef þeir koma ekki út í bullandi mínus á mynd sem þeir héldu að yrði stórsmellur.

Að sjálfsögðu reyna menn að klóra í bakkan og gera lítið úr því sem augljóslega eru risavandræði.  Adam Goodman, forseti Paramount,  lét hafa eftir sér. „myndin lítur frábærlega út, en við vorum öll sammála um að hún gæti haft betri endi (…) við erum sannfærð um að myndin slær í gegn þegar hún kemur út í júní.“

Líklega bíða myndarinnar örlög svipuð fýlubomunum Jonah Hex og The Invasion… en mikið var einnig skrifað um framleiðsluvandræði Titanic áður en hún kom út, og það blessaðist nú allt á endanum. Við sjáum hvað setur.