Nicholas Winding Refn fær 10 Ráð

Danski leikstjórinn sem færði okkur Drive, Pusher-þríleikinn, og Bronson, var staðfestur í gær sem framleiðandi og leikstjóri myndarinnar The Hitman’s Guide To Housecleaning af forsvarsmönnum Truenorth, sem munu vinna með tökuliðinu hérlendis þegar að því kemur. Myndin er byggð á bókinni 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason, en kvikmyndarétturinn á bókinni var keyptur í fyrir stuttu af danska framleiðslufyrirtækinu Miso Film.

Söguþráðurinn er spes og stórskemmtilegur, og það verður spennandi að sjá hvað Winding Refn gerir með hann; bókin fjallar um króatíska leigumorðingjan Tomislav Boksic (eða Toxic, eins og hann er frekar þekktur sem í sögunni) sem kemur (fyrir tilviljun) til íslands á meðan aðstæður erlendis róast eftir að eitt verkefnið fór á annan veg. Hann þykist vera erlendur sjónvarpsprédikari og kynnist þannig mjög trúuðum íslenskum hjónum og dóttir þeirra, en brátt tekur atburðarrásin óvænta stefnu fyrir Toxic og fljótt gjörbreytist álit hans á klakanum og lífstíl sínum.

Bókin hefur verið að gera það gott á Amazon þessa dagana og komst meðal annars á metsölulistann þar yfir Kindle-rafbækur í undirflokkunum ‘Spy stories & tales of intrigue’ og ‘Hard-Boiled’. Bókin fékk blendna dóma á íslandi þegar hún kom út (og ekki síst titill bókarinnar) en undirritaður tekur undir jákvæðu dómana um að bókin sé hin fínasta skemmtun frá byrjun til enda. Winding Refn sagði í gríni við danska fréttablaðið Jyllands-Posten að hann væri til í að fá Ryan Gosling til að raka sig sköllóttan fyrir hlutverkið, en Refn hefur lýst yfir áhuga sínum á að fá kappann í hlutverk Toxic.

Hvernig lýst lesendum á að þetta? Sjálfur fílaði ég bókina í botn og get vart bælt spenning minn fyrir myndinni, og hvað þá að þessi magnaði kauði sé á leið til landsins.