The Man from U.N.C.L.E. leikstjóralaus

Við á kvikmyndir.is höfum ekki fylgst náið hinu erfiða ferli sem mynd The Man from U.N.C.L.E. hefur gengið í gegn um síðan að Steven Soderbergh tók að sér að koma endurgerð af samnefndum spæjaraþáttum á hvíta tjaldið. Kannski eins gott, því nú lítur út fyrir að ekkert verði úr myndinni – allavega ekki í höndum Soderberghs.

Soderbergh og handritshöfundurinn Scott Z. Burns hófu að þróa myndina í byrjun árs 2010, og vildu láta hana gerast á sjöunda áratugnum – á þeim tíma sem upprunalegu þættirnir voru gerðir. Þættirnir fylgdu útsendaranum Napoleon Solo og rússneskum félaga hans Illya Kuryakin, sem vinna báðir fyrir háleynilega njósnadeild U.N.C.L.E í miðju kalda stríðinu. Þættirnir voru eins og heyra má stæling á fyrstu ævintýrum njósnara hennar hátignar 007, og vildu þeir Soderbergh og Burns halda þeimn tíðaranda.

George Clooney var upphaflega orðaður við hlutverk Solo, en dró sig út úr myndinni vegna bakvandamála. Þá hófst löng og erfið leit að leikurum í aðalhlutverkin tvö, þar sem toguðust á tilhneygingin til að vilja fá stjörnu um borð og hitt að vilja ná í ungt og ferskt andlit. Ekki tekur því að rekja alla söguna, en leikarar sem komust misnálægt verkefninu voru m.a. Michael Fassbender, Joel Kinnaman, Johnny Depp, Ryan Gosling, Matt Damon, Bradley Cooper, Joel Edgerton, og nú síðast Channing Tatum.

Allt kom fyrir ekki og hvorki stúdíóið né Soderbergh voru aldrei beint sammála. Ofan á leikaravandræðin bættist svo við að Soderbergh og Warner voru ósammála um kostnað myndarinnar. WB sögðu 60 milljónir dollara vera hámarkið, sem Soderbergh fannst of lágt fyrir hasarmynd sem átti að gerast í fjórum heimsálfum – fyrir 40 árum – og þar að auki að verða byrjunin á kvikmyndaþríleik ef allt hefði farið að óskum. Tökur áttu að hefjast í mars, og Soderbergh hefur séð fram á að með öll þessi vandræði myndi sú dagsetning ekki nást, og ákveðið að draga sig til hlés. Óvíst er hvort Warner finni einhvern sem er tilbúin að gera ódýrari útgáfu myndarinnar til að taka beint við keflinu, eða hvort verkefnið sé aftur komið á byrjunarreit.