Viðtal: Tom Six


Þeir sem hafa verið viðstaddir nálægt Tom Six eða hafa séð vídeóviðtöl með honum taka fljótt eftir því að hann er allt öðruvísi en maður myndi fyrst halda um manninn sem gerði báðar Human Centipede-myndirnar umdeildu. Flestir hefðu búist við svartsýnum, ógeðfelldum manni en Six er í rauninni einn hressasti, viðkunnanlegasti og brosmildasti leikstjórinn sem þú finnur þarna úti.

Kvikmyndir.is tók prívatviðtal við misþyrmingarmeistarann og það leit út fyrir að við vorum þeir einu sem fengu „one-on-one“ spjall með hollendingnum. Áreiðanlegar heimildir segja okkur að aðrir fjölmiðlar á landinu vildu ekkert með þennan ljúfling hafa.

Kíkjum á hvað kappinn hafði að segja:

(T.V.)Eins og margir vita þá eru framhaldsmyndir í hryllingsmyndageiranum oftar en ekki bara beinar endurtekningar á forverum sínum. Þegar þú byrjaðir að vinna í þessari mynd, varstu með það á bakvið eyrað og var það þess vegna sem þú vildir gera allt, allt öðruvísi mynd?

(Tom Six)Ekki spurning! Ég er mikið fyrir hryllingsmyndir og þoli ekki hvað framhaldsmyndirnar verða oft ófrumlegar. Þær herma bara beint eftir og eru eiginlega alltaf verri. Ég til dæmis elskaði fyrstu Saw-myndina, fyrstu Paranormal Activity-myndina og fyrstu Hostel, en framhaldsmyndirnar eru allar bara að reyna að endurgera þessar fyrstu. Það er óþolandi og fyrir mig sem kvikmyndagerðamann skil ég ekki hvernig sumir leikstjórar nenna alltaf að endurtaka sig eða það sem aðrir gerðu á undan þeim.

Með The Human Centipede 2 vissi ég að mig langaði til að gera þveröfuga mynd við þá fyrstu. Nr. 1 er í lit, þessi svart-hvít. Dieter Laser var stór og mjór, en í þessari er brjálæðingurinn lítill og feitur. Hér veistu heldur ekki alveg hvort „vondi kallinn“ sé í alvörunni vondur. Hann er auðvitað skemmdur, en í fyrri myndinni var mjög ljós hverjir voru vondir og hverjir voru fórnarlömb. Sú fyrsta var meira sálfræðileg, þessi voða yfirdrifin og ljót. Síðast notaði ég alltaf þrífót en þessi er tekin upp meira „hand held.“

Var ekki miklu meira krefjandi að gera þessa? Og ef svo er, hvernig þá?

Jú, fyrst og fremst vegna þess að við vorum með fleira fólk í margfætlunni. Ef þú prufar að skríða og vera á fjórum fótum í aðeins nokkrar mínútur þá fer þér að líða óþægilega. Manni langar að standa upp en leikararnir voru fleiri og var þetta mjög átakanlegt fyrir þá. Við sýnum miklu meiri viðbjóð, þannig að það þurfti að búa til alls konar gerviefni. Og ef einhverjir eru að velta fyrir sér hvernig fólkið gat verið alveg ofan í rassinum á hvort öðru, þá vorum við með latex-húð yfir hverri rassskin og fólkið gat bitið fast á endann á þeim. Hins vegar var allt þetta latex ótrúlega þunnt, þannig að það var mjög stutt í alvöru endaþarminn. Algjörar hetjur, þessir leikarar.

Burtséð frá því að vera frábær kynning, hvað fannst þér um að breska kvikmyndaeftirlitið (BBFC) hafi spoilað grófustu senunum opinberlega svona langt áður en nokkur annar sá myndina?

Þetta hafði sína kosti og galla, að sjálfsögðu. Þegar kvikmyndaeftirlitið sagði að enginn með réttu viti ætti að horfa á þessa mynd, þá fékk hún svo gríðarlega athygli að ég var bara nokkuð ánægður. Þegar þú ert að gera hryllingsmynd þá er einn besti heiðurinn sem þú getur fengið sá að einhver snobb manneskja með vald hafi bara liðið ömurlega. Snilldar markaðssetning í raun, en gallinn er auðvitað sá að kvikmyndaeftirlitið ætlaðist til þess að ég myndi breyta myndinni og þeir birtu í smáatriðum lýsingar á atriðum sem ég vildi að kæmu á óvart.

Það voru teknar út tæplega þrjár mínútur og ég er rosalega ánægður að íslendingar séu einir af fáum sem geta séð myndina eins og ég vil hafa hana. Hún er rosalega bitlaus í bretlandi og bandaríkjunum þegar búið er að taka ljótustu senurnar, en það verður reyndar hægt að sjá hana óklippta á DVD sem betur fer.

Finnst þér kvikmyndaeftirlit almennt eyðileggja sýn djarfra leikstjóra þegar þeir vilja ganga eins langt yfir strikið og þeir geta?

Ég trúi engan veginn á svona ritskoðun. Myndin mín er gerð fyrir hryllingsmyndaunnendur og þeir koma til að sjá hreinan viðbjóð án þess að eitthvað snobbað lið sem kemur myndinni ekkert við sé að sigta út hvernig þú átt að sjá hana. Ég trúi bara á aldurstakmörk sem koma í veg fyrir að börn undir lögaldri séu að horfa á eitthvað ljótt. Fullorðið fólk getur ákveðið sjálft hvort það vilji sjá myndina mína eða ekki. Það á ekki að vera til einhver millivegur sem gerir upplifunina „auðveldari“ á þá sem komu til að horfa á allt þetta ógeðslega, og njóta þess.

Hefurðu lent í því að sjá einhvern æla á þessari mynd eða þeirri fyrstu?

Ekki ennþá á þessari. Þeim sem finnst hún vera „of mikið“ hafa annað hvort bara lokað augunum eða farið út úr salnum. Það leið að vísu yfir eina konu sem horfði á þessa í bandaríkjunum. Það þurfti sjúkraliða til að bera hana út úr salnum. Ég man samt þegar ég sýndi fyrstu myndina í bíói í Texas þar sem hægt var að borða heitan mat á meðan bíósýningu stóð, sem er alls ekki sniðugt þegar þú ert að horfa á svona hryllingsmynd. Einhver maður ældi beint ofan í matinn sinn.

Þar sem Human Centipede-myndirnar eru augljóslega ekki gerðar fyrir hvern sem er, þá verð ég að spyrja hvort það séu einhvers konar týpur af myndum sem þú sjálfur neitar að horfa á. Rómantískar gamanmyndir kannski?

Ég er óvenju sterkur kvikmyndaunnandi og get horft á hvað sem er. Það eina sem mér líkar ekkert við eru teiknimyndir. Ég er mjög hrifinn af drama og ekki síður gamanmyndum. Ég sá til dæmis Horrible Bosses um daginn og hló mikið að henni. Borat er líka ein uppáhalds gamanmyndin mín en svo get ég að sjálfsögðu horft á allt þetta mjúka. Blue Lagoon höfðar sterkt til mín og alls konar ’80s myndir.

Hefurðu pælt í að búa til barnamyndir?

Nei, get ekki sagt það. Þær höfða ekkert sérstaklega til mín, eins og ég minntist á með teiknimyndirnar. Mig langar frekar til að prufa mig meira áfram í hryllingsgeiranum og ég er með nokkrar frumlegar hugmyndir sem mig langar til að gera. Allar mjög sjúkar, sálfræðilega. En þann dag þar sem ég hef ekki lengur þannig hugmyndir, þá mun ég kannski prufa mig áfram í drama eða kannski gamanmyndum. Það væri ég alveg til í, og Human Centipede 2 er í sjálfu sér mjög, mjög svört gamanmynd.

Fyrst ég er nú hérna með þér, verð ég að spyrja að klassísku Íslandsspurningunum. Hvernig finnst þér landið og hvað vissirðu um Ísland áður en þú komst hingað?

Gullfallegt land, og ég get ekki beðið eftir að kíkja í skoðunarferðir. Ég verð hérna alveg yfir helgina (samtals 5 daga). Annars varð ég fyrst var við landið í gegnum Bobby Fisher, sem mér fannst alltaf svo athyglisverður. Svo heyrði ég að Eli Roth og Quentin Tarantino heimsóttu landið oftar en einu sinni. Mér finnst mest heillandi hvernig þetta er svona einangraður staður í hafinu með litlum fólksfjölda.

Svona að lokum, er eitthvað sem þú mátt segja um þriðju myndina?

Hún mun láta númer tvö líta út eins og Pixar-mynd, og verður klárlega uppáhaldsmyndin mín í þríleiknum. Hún hefst beint þar sem nr. 2 endaði, alveg eins og nr. 2 byrjar með því að sýna endinn á fyrstu myndinni. Þetta er gert svo hægt sé að horfa á allar myndirnar í einum fjögurra tíma rykk. Þriðja myndin verður sú allra sjúkasta en á allt, allt öðru leveli heldur en þessi sem þið sáuð núna. Ég ætla ekki endilega að reyna að toppa sjálfan mig í subbuskap heldur hugmyndum.