Wachowski systkinin aftur að Sci-Fi

Stuttu fyrir aldamótin skrifuðu þá-nýgræðingarnir Andy og Larry Wachowski litla Sci-Fi mynd enginn vildi taka við. Eftir að hafa sýnt honum anime myndina Ghost in the Shell, ákvað framleiðandinn Joel Silver að gefa bræðrunum séns og með því sköpuðu þeir Hollywood-hasarmyndirnar eins og við þekkjum þær í dag. Þessi litla Sci-Fi mynd? Það sem myndi verða marga milljarða sería, The Matrix. Allir geta verið sammála um að bræðurnir góðu náðu aldrei sömu hæðum og með fyrstu Matrix myndinni, enda þvílíkar hæðir, en síðan að serían hætti árið 2003 og einni kynskiptiaðgerð seinna, snertu þau ekki aftur við Sci-Fi geiranum. Þangað til núna.

Í ljós hefur komið að Wachowski systkinin eru með nýtt Sci-Fi handrit í bígerð og mun verkefnið heita Jupiter Ascending. Því miður er lítið sem ekkert vitað um myndina að svo stöddu, en systkinin fóru að vinna að henni eftir að fjármagn fyrir metnaðarfulla verkefnið þeirra, Cobalt Neural 9, fékkst ekki. Til gamans má geta að myndin fjallar um ástarsamband Íraka og amerísks hermanns og síðar áform um að myrða fyrrverandi forseta BNA, George W. Bush.

Wachowski’in eru í augnablikinu að leikstýra hluta myndarinnar Cloud Atlas, en lýsingin af Wikipedia hljóðar svona: „Þetta er epísk saga af mannkyninu þar sem að gerðir og afleiðingar lífs okkar hafa áhrif á hvort annað í gegnum fortíð, nútíð og framtíð á meðan að ein sál er mótuð frá morðingja yfir í bjargvætt og einn góðkynja verknaður ómar í gegnum tímann til að veita byltingu innblástur.“

Hvernig hljómar svo að Wachowski systkinin ætla aftur að sci-fi geiranum? Hafa þau ennþá hæfileikana eða var Speed Racer síðasti naglinn í líkkistuna þeirra?