Viðtal: Eyrún Ósk Jónsdóttir – Hrafnar, Sóleyjar og Myrra

Íslenska fjölskyldumyndin Hrafnar, Sóleyjar og Myrra var frumsýnd nú um helgina. Við fengum annan handritshöfund og leikstjóra myndarinnar, Eyrúnu Ósk Jónsdóttur í smá viðtal um myndina. Myndina má sjá í Sambíóunum núna.

Er ekki ákveðinn léttir að vera búinn að klára myndina, búin að vera löng og ströng eftirvinnsla?
Algjörlega – það er æðisleg tilfinning.

Hvernig kom hugmyndin að myndinni?
Það var þannig að Helgi (Sverrisson, meðleikstjóri) hafði áður gert barnamyndina Didda og Dauði Kötturinn, og langaði að gera eitthvað meira fyrir börn, og kannski eitthvað sem væri fyrir aðeins eldri, 11 ára og upp. Honum fannst vöntun á íslensku barnaefni fyrir þau, samt eitthvað sem væri fyrir alla fjölskylduna. Hann kom að máli við mig og bað mig að hjálpa sig við að skrifa myndina, og svo fæddist hugmyndin í borðtennis okkar á milli, þar sem við köstuðum hugmyndum á milli, og skrifuðum og endurskrifuðum og endurskrifuðum.

Þið gáfuð út bók með sögunni um Láru síðustu jól, hugsuðið þið söguna samt alltaf sem bíómynd?
Já við skrifuðum bókina fyrst, og handritið svo í kjölfarið. Þannig að þegar við skrifuðum bókina vorum við með í huga tökustaði og vorum að skrifa inní tökustaði sem þegar eru til í Hafnarfirði, við vorum með samfélagið þar í huga þegar við skrifuðum bókina. Bókin er líka svolítið sjónræn, með lýsingar á stöðunum og svona.

Myndin er einmitt öll gerð í Hafnarfirði, hvernig virkaði það? Var ekkert erfitt að þurfa ekki að leita annað eftir tökustöðum?
Nei, einmitt af því að við höfðum skrifað með það í huga upprunalega, og vorum að nota svokallaða skotskífu aðferð, sem þýðir að við notuðum ekki neina tökustaði sem voru utan 1. km. radíus, fyrir utan að við fórum einu sinni upp á Landakot og einu sinni upp að Bláfjallaafleggja. Það var það eina sem við fórum út fyrir þetta. Þetta er hagkvæm leið til að taka upp mynd, þú ert miklu fljótari á milli staða, þarft ekki að keyra tækjabúnað og fólk á milli staða heldur er þetta nánast í göngufæri. Svo fengum við náttúrulega mikinn stuðning frá Hafnarfjarðarbæ og Hafnfirðingum, og það er nánast annar hver maður í bænum sem er í einhverju atriði hjá okkur.

Ég tók eftir að það var svolítið af Indverskum nöfnum á kreditlistanum…
Já það voru tölvuartistarnir, sem gerðu tölvubrellurnar fyrir okkur. Við sendum bara File-ana til þeirra, þeir unnu það og sendu til baka svo við gætum séð það, og við sendum aftur og báðum um breytingar og svo framvegis. Þannig að það var rosa gaman. Maður áttar sig ekki á því en þetta er svo stór kvikmyndaiðnaður á Indlandi. Þetta er í raun og veru mun stærra en Hollywood þarna.

Þið eruð með mjög flottan leikhóp, og sérstaklega stóð hún sig vel Victoría í aðalhlutverkinu. Hvernig fór leitin að Láru fram?
Við héldum áheyrnarprufur og það komu um 250 stelpur í prufur. Við kölluðum svo 10 stelpur til baka létum þær fara í smá spuna og þannig fyrir framan myndavél. Við horfðum svo á efnið og völdum Victoríu í kjölfarið. Það var rosalega erfitt að velja úr, því það komu svo ofsalega margar hæfileikaríkar stelpur sem komu þarna. En svo völdum við hana, og hún var hjá okkur frá alveg febrúar fram í júní, og þá var hún í allskonar þjálfun hjá okkur, raddþjálfun og leiklistarþjálfun, hún fór í klifur í Bjarkarhúsinu og lærði Parkour, og lærði á BMX stönt, – það sem þurfti að gera í myndinni. Þannig að já, hún stóð sig ótrúlega vel stelpan, mikið svona „Commitment“ í henni.

Já það sást á skjánum fannst mér. Þá þakka ég fyrir viðtalið, og óska ykkur til hamingju með myndina!