Hrollvekja Marsibilar sigraði Stuttmyndadaga

Stuttmyndadagar í Reykjavík voru haldnir í Bíó Paradís þann 15. og 16. júní og lauk með verðlaunaafhendingu. Alls voru sýndar 18 myndir og var hátíðin mjög vel sótt bæði kvöldin. Í fréttatilkynningu segir að aðstandendur séu á einu máli um að gæði mynda að þessu sinni hafi verið óvenju mikil gegnumsneytt.

Hrollvekjan Freyja eftir Marsibil Sæmundardóttur hlaut fyrstu verðlaun að þessu sinni. Hér segir frá ungri konu, Freyju, sem er barnshafandi og komin 7 mánuði á leið. Hún og Albert maðurinn hennar hafa keypt stórt hús útá landi og Freyja bíður ein í húsinu eftir að Albert komi með búslóðina þeirra. Eftir nokkra daga er Freyja orðin óróleg, það er eitthvað á seyði í húsinu sem veldur henni áhyggjum. Í umsögn dómnefndar um myndina segir: „Leikstjóri sýnir gott vald á kvikmyndamiðlinum. Heilsteypt verk þar sem allir þættir kvikmyndarinnar ganga upp, leikur, kvikmyndataka og listræn umgjörð. Frásagnarstíll er hnitmiðaður og myndin heldur áhorfendum föngnum frá fyrstu mínútu.

Önnur verðlaun hlaut Shirley eftir Eilíf Örn Þrastarson, tragíkómedía um unga stelpu reynir að láta pabba sinn hætta að drekka. Í umsögn dómnefndar segir: „Góð nálgun á erfiðu viðfangsefni. Listræn umgjörð og fallegt myndmál. Myndin sýnir sterkan höfundarstíl leikstjóra.“

Í þriðja sæti lenti In Memoriam eftir Hauk M., drama um ungan mann sem á erfitt uppdráttar eftir sjálfsmorð móður sinnar. Í umsögn dómnefndar segir: „Persónuleg og áhrifarík mynd, fallegt myndmál í draumkenndum og tregafullum stíl.“

Áhorfendaverðlaunin féllu einnig Freyju í skaut, en að auki veitti dómefndin sérstaka viðurkenningu til mínútumyndarinnar Tímaleysi eftir Svölu Georgsdóttur.

Veitt voru þrenn verðlaun fyrir bestu myndirnar, 100.000 kr. fyrir fyrsta sætið, 75.000 kr. fyrir annað sætið og 50.000 kr. fyrir þriðja sætið.

Sjónvarpið mun sýna þær myndir sem hlutu þrjú aðalverðlaunin. Þá verður Marsibil Sæmundsdóttur boðið á Kvikmyndahátíðina í Cannes að ári með mynd sína þar sem hún tekur þátt í hinu svokallaða Short Film Corner.

Í dómnefnd Stuttmyndadaga sátu eftirtaldir: Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi, Hálfdán Pedersen leikmyndahönnuður og Lars Emil Árnason handritshöfundur og leikstjóri.

Sigurvegarar Stuttmyndadaga 2011: Marsibil Sæmundardóttir leikstjóri Freyju og Eilífur Örn Þrastarson leikstjóri Shirley. Haukur M., leikstjóri In Memoriam sem hlaut þriðja sætið, var fjarri góðu gamni.