TÍAN: Fyndnustu og kröftugustu atriði ársins 2010


Þá er loks komið að því að halda áfram að kryfja bíóárið sem er að baki. Ég biðst afsökunar á því hvað þetta tók langan tíma (rúman mánuð! ái). Ég er nýbyrjaður í skóla aftur og dróst svolítið aftur úr í bíóferðum og kvikmyndaáhorfi (*grenj), sem útskýrir kannski hvers vegna ég náði aldrei að fjalla um myndir eins og Klovn, Rokland, Hereafter, The Tourist o.fl. Annars er ég kominn á gott skipulagsról núna og mun bæta upp fyrir það sem hefur vantað og ég byrja auðvitað á því að kafa út í eftirminnilegustu mómentin sem áttu sér stað í 2010 bíómynd. Fyrir jól skrifaði ég um svölustu atriði ársins og núna er komið að tvöfaldri Tíu, þar sem ég mun tala um fyndnustu og sterkustu atriði ársins. Ég tek það fram að eftirfarandi textar gætu verið dálítið þungir á Spoilerum. Bara vara ykkur við. Lesið endilega titlanna fyrst til að téka hvort þið hafið séð þá og metið síðan hvort þið viljið halda áfram að lesa eða ekki.

Allaveganna… Förum fyrst í:

Það voru ansi mörg frábær kómísk atriði á síðasta ári og mörg þeirra voru svo klassísk að ég gat ekki annað en púslað þeim saman í einn lista, sem er án efa sá undarlegasti sem ég hef nokkurn tímann skrifað.

10. ALLT MEÐ HESTINUM
(Tangled)

Smá svindl þar sem ekki er einungis ein sena nefnd – en ég leyfi það núna. Annars veit ég ekki með ykkur en mér fannst Tangled bjóða upp á algjöran fjársjóð af bröndurum. Myndin er svo létt, svo sturluð, svo litrík en allan tímann með okkur fullorðna pakkið í huga. Hver einasta persóna fannst mér vera frábær og minnisstæð á einhvern hátt, en ef ég þyrfti að velja eina þá væri það klárlega konungshesturinn Maximus. Hver einasta sena með honum er gullmoli vegna þess að hann er svo ákveðinn og þrjóskur á sama tíma. Senan hérna fyrir ofan útskýrir fullkomlega hvernig þessi óborganlegi Disney-karakter hegðar sér. Augljóst er að kompaníið tók sína snjöllustu ákvörðun í marga áratugi með því að fá John Lasseter (höfuðpaurinn hjá Pixar, fyrir þá sem ekki vita) um borð sín megin.

9. „DART GUN“
(Despicable Me)

Hér er smábarnahúmorinn kominn á hæsta stig en mér gæti ekki verið meira slétt sama því þetta er e.t.v. einhver frumlegasti prumpubrandari sem ég hef séð í barnamynd. Ég elska líka setningna sem Russell Brand segir alveg í lokin og þetta anti-gravity dæmi er líka mjög fyndið (og hugsanlega pínu grimmt á sama tíma?). Í rauninni eru langflestar senurnar með gulu minion-köllunum æðislegar í þessari krúttlegu klisjumynd.

8. KYNLÍFSSENA Í (KLASSÍSKUM?) ’80s STÍL
(MacGruber)

Mikið vildi ég óska að ég hefði dýrkað þessa mynd. Ég fíla Lonely Island húmorinn í drasl og af einhverjum ástæðum er Hot Rod orðin ein af mínum uppáhalds gamanmyndum. Samt tókst mér ekki að líka jafn vel við þessa mynd og ég vildi (ýmsar ástæður, getið lesið um það hér). Stundum brosti ég, stundum hló ég mikið og síðan bara alls ekkert í langan tíma en þó fékk ég nákvæmlega tvær senur þar sem ég veinaði úr hlátri, og þetta er önnur þeirra. Alveg dásamlegt „homage“ til klassískra ’80s ástaratriða (hugsið Terminator 1, Highlander, Lost Boys o.fl. o.fl.) nema hér hættir tónlistin skyndilega og við tekur alveg yndislega löng og næstum því óþægileg fullnægingarsena þar sem Will Forte gerir allt sem hann getur til að vera eins ó-sexý og þið stelpurnar gætuð ímyndað ykkur. Atriðið er samt örugglega fyndnara fyrir þá sem hafa séð myndina því þeir vita hvað kemur beint eftir þetta atriði. Frekar gott.

7. MR. TORTILLA HEAD/EL BUZZO
(Toy Story 3)

TS3 er bara ein af þessum myndum sem þú getur ekki annað en elskað, og ef þú gerir það ekki hefurðu enga sál. Allir eiga sín uppáhalds móment hvort sem þau eru sorgleg eða fyndin. Ég kemst ekki hjá því að svitna pínu með augunum í hvert sinn sem ég ímynda mér Andy neita að gefa frá sér Woody-dúkkuna í lokin en hvað besta grínið varðar eru tvö atriði sem eiga heiðurinn. Ég leyfi þessu að sleppa með jafntefli því það er mjög stutt á milli þessara atriða. Tortilluhausinn er auðvitað ekkert annað en pjúra snilld og þegar Buzz breytist í spánverja hlæ ég yfir ábyggilega öllu sem hann segir. Eðalfjör, enda mynd sem sýnir Chris Nolan að það *ER* hægt að gera þrist sem toppar forveranna. Vonin er enn til staðar…

6. SEINFELD-LAGIÐ
(Scott Pilgrim vs. The World)

Óvænt, random, FRÁBÆRT!

5. TUNA VS. LION
(The Other Guys)

Will Ferrell hefur átt fáeina góða daga og marga mjög slæma en því verður ekki neitað að hann getur verið djöfull góður þegar hann er í stuðinu. The Other Guys fannst mér vera ein af hans betri gamanmyndum þó svo að hún hafi kannski ekki haldið mér hlæjandi út alla lengdina. Hún hélt mér allavega vakandi og oft hlæjandi lengi. Svipað og með MacGruber þá einkennist þessi mynd af tveimur senum sem settu mig í langt hláturskast, og einræðan hans Ferrells um hvernig túnfiskar sigrast á ljónum er svo heimskulega absúrd og útpæld að það er ekki hægt annað en að gefa manninum hrós fyrir að halda andliti, svo ég tali nú ekki um Mark Wahlberg. Mögnuð sena, tékkið á henni ef þið hafið ekki ennþá séð myndina. Og ef þið hafið ekki ennþá séð myndina, skottist út á leigu og smalið félögum ykkur saman til að glápa á þessa steik.

4. ÚPS!
(MacGruber)

Þegar einn maður sprengir óvart upp heilan bíl með öllum vinum sínum inn í honum og hrópar síðan eftirá „You guys okay??“ get ég ekki annað en fundið fyrir beinverkjum af hlátri. Það sýgur samt dálítið hversu snemmt þetta atriði er í myndinni, og það er alltaf fúlt þegar bestu atriðin eiga sér stað á innan við fyrsta hálftímann og myndin nær aldrei að toppa sig eftir það. Það sama á reyndar við um senuna sem hirðir efsta sætið á listanum.

3. „AFRICAN FACE“
(Get Him to the Greek)

Besti rasistadjókurinn á öllu árinu! Skemmtileg mynd líka með furðu góðu „replay value-i.“

2. VEGAN POLICE
(Scott Pilgrim vs. The World)

Geggjuð cameo-hlutverk og megafyndin sýra rúllast hérna saman í eitt. Þetta atriði undirstrikar það hvers vegna Scott Pilgrim-bækurnar eru svona fyndnar og líka hversu góður húmoristi Edgar Wright er. En eins og gengur og gerist þegar sérvitur húmor er í boði eru ekki allir sem meta hann, Þessi mynd fékk mjög svo blendnar viðtökur hér á klakanum rétt eins og allstaðar annars staðar, og það fer ekki á milli mála að þetta sé annað hvort mynd sem þú styður í tætlur eða ert bara alls ekkert hrifinn af.

1. „AIM FOR THE BUSHES“
(The Other Guys)

Þarf að útskýra þetta eitthvað þetta nánar?? Þetta er ÓMETANLEGT atriði.
(Takið samt sérstaklega eftir því að það eru hvergi runnar sjáanlegir)

.:BÓNUSATRIÐI:.
(smá runner-up)

PIRANHA-LESSUR

Ómótstæðilega listrænt og fyndið innskot sem í venjulegri mynd hefði ekki þjónað neinum tilgangi, en í Piranha-mynd skiptir það öllu. Þú getur ekki annað en hlegið yfir því hvað er mikið verið að nudda þessu framan í þig og tilhugsunin um hversu lengi gellurnar ná að halda niðri í sér andanum gerir þetta ennþá fyndnara.

Ég er samt ekki búinn… Nú kemur alvaran:

Allir sem heimsækja þessa vefsíðu reglulega vita að það er æðisleg tilfinning þegar bíómynd fær mann til að veltast um af hlátri, en það er jafnvel betri tilfinning þegar maður festist tilfinningalega við það sem er að gerast á skjánum. Það er vanmetið hversu erfitt það er að búa til senur sem hitta akkúrat á allar réttu nóturnar og fá mann til að finna andlega til með persónum og aðstæðum í kringum þær. 2010 var svosem ekkert átakanlegt ár, því miður, en það voru nokkuð minnisstæð augnablik til staðar.

(Sama regla á við um Spoilera – ekki gleyma henni!)

10. SÍMTAL VIÐ VINNUNA
(Buried)

Orðið svekkjandi kemst ekki í tæru við það að útskýra hvernig mér myndi líða ef ég fengi að heyra það sem Ryan Reynolds fær að heyra þegar langt er liðið á seinni hluta myndarinnar. Stephen Tobolowsky lánar rödd sína sem hin lína símtalsins sem gefur Reynolds hræðilegar fréttir. Hann fær í rauninni eitt gríðarstórt „fokkjú“ frá vinnunni sinni og ég held að það sé ekki sál sem sér þessa mynd sem finnur ekki sterkt til með manninum eftir þessa senu. Ég vonaðist svo innilega til þess að Reynolds myndi sleppa út úr þessu bara svo hann gæti gengið upp að Tobolowsky og tekið smá Liam Neeson-takta á hann.

9. SLÆM HUGMYND!
(Frozen)

Frozen fjallar um þrjú ungmenni sem festast í skíðalyftu, og einn tekur upp á því að hoppa bara niður. Það sem fylgir í kjölfarið á því er einhver sársaukafyllsta sena sem ég sá á öllu seinasta ári. Persónan fær að upplifa góðan skammt af helvíti eftir þetta stökk. Hún fótbrýtur sig og fær að njóta þess að sjá bein standa út úr löppinni á meðan úlfar nálgast úr öllum áttum. Kannski það hefði verið betri dauðdagi að frjósa í hel?

8. BUTLER AFNEITAR SYNI SÍNUM
(How to Train Your Dragon)

Þið þekkið öll söguna; Klaufalegur drengur vingast við dreka en má engum segja því drekar eru sagðir vera ekkert annað en illir. Í kringum lokaþriðjunginn verður pabbi hans (talsettur af Gerard Butler) vitni af þessari vináttu og ákveður síðan að afneita syni sínum og handsama drekann. Mjög brútalt atriði sem hittir beint í hjartaræturnar á manni. Þeir sem eru ósammála hafa annaðhvort ekkert hjarta eða mjög mikil „daddy issues.“

7. ALLT FER Í FOKK Á DJAMMINU!
(Órói)

Það er ákveðin röð af senum sem á sér stað í seinni helmingnum á Óróa sem minnti mig á svona Diet útgáfu af Requiem for a Dream. Hröð klipping, markviss leikstjórn og trúverðugur leikur spilar mikinn þátt þarna. Við flökkum á milli staða á mjög óþægilegum hraða (viljandi gert) og þetta endar allt með sjálfsmorðssenu sem kemur að manni eins og karatespark í magann. Ég næ mjög sjaldan að tengjast íslenskum kvikmyndum persónulegum böndum, en Órói gjörsamlega náði mér, og það var á þessum tímapunkti þar sem ég vissi að þetta væri ekki bara tussufín íslensk unglingamynd, heldur frábær íslensk mynd sem er áhrifarík og raunsæ í senn.

6. HERMIONE „KVEÐUR“
(Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 1)

Jú, dauðinn hans Dobby var mjög sorglegur. Ekki halda að ég hafði gleymt því, en hins vegar kom sá karakter algjörlega upp úr þurru (þökk sé þess að hinar myndirnar – nema nr. 2 – slepptu honum) og þess vegna fannst mér ekki vera eins mikill tilfinningalegur þungi á bakvið þá senu. Þessi Potter-mynd má samt eiga það að hún er helvíti áhrifarík og grimm, en ekkert atriði toppar það sem var alveg í byrjuninni þegar Hermione ákveður að eyða sjálfri varanlega sér út úr minningu foreldra sinna (til að vernda þau víst). Emma Watson hefur sýnt ógurlega misjafna takta í þessu hlutverki, en í þessari mynd var hún hátt í gallalaus. Þetta var hennar móment og hún átti þessa mynd.

5. FÖRUM Á BRENNU
(Toy Story 3)

Auðvitað vissum við að leikföngin myndu ekki deyja hroðalegum dauðdaga í brennsluofni, en þau vissu það ekki! Og hvernig þessar persónur sætta sig við það að þær eru að fara að deyja er hér um bil taugatrekkjandi. Pixar-menn kunna þetta.

4. EDUARDO REKINN
(The Social Network)

Aron Sorkin og David Fincher eru rafmagnaðir saman. Í stað þess að detta út í pínda melódramatík til að sýna það hvernig vinátta Marks Zuckerberg og Eduardo Saverin dettur í sundur á augabragði er notuð mjög lágstemmd og einföld sena. Saverin rústar tölvu Zuckerbergs og með einni lítilli ræðu finnur maður fyrir því að það verður aldrei aftur eins hjá þeim. Hann var eini vinurinn sem Zuckerberg átti, sem er sorglegt en skiljanlegt þegar maður sá hvernig myndin túlkar hann.
Elska þessa mynd.

3. ARON LOSAR SIG
(127 Hours)

Ái… ái… Á!!

2. ÞAÐ SEM Í RAUNINNI GERÐIST
(Shutter Island)

Shutter Island fékk svolítinn skell frá fólki vegna þess að mörgum fannst lokafléttan of fyrirsjáanleg. Þessu er ég ekki ósammála því það er ekki eins og sagan hafi boðið upp á marga möguleika. Það sem margir samt föttuðu ekki er að það er svo margt meira á bakvið þessa mynd heldur en bara sjokk-endir, og það er einmitt að finna í senunni þar sem Leo DiCaprio sér hvað konan hans (Michelle Williams) hefur gert við börnin þeirra. Leo hefur að mínu mati aldrei verið betri en í þessari senu og maður skilur fullkomlega persónuna hans (og af hverju hún varð svona kexrugluð) eftir hana. Öll sagan byggir upp þetta staka augnablik og allar vísbendingar sem eru að finna í sögunni tengjast þessu á einhvern máta. Aðeins dýpri niðurstaða heldur en einungis „hann var geðveikur allan tímann.“ Horfið á myndina aftur!

1. ALLUR ENDIRINN!
(Black Swan)

Staðreynd = Darren Aronofsky kann að byggja upp gott drama, og með Black Swan er hann að runka áhorfendum út alla myndina og endirinn kemur að manni eins og risastór fullnæging. Maður er alveg andlega búinn á því eftir áhorfið en það er aðeins ein af mörgum ástæðum af hverju þessi mynd er svona ógleymanleg. Sagan er stanslaust mænd-fokk og vegna þess að Natalie Portman er svo góð í aðalhlutverkinu líður okkur álíka óþægilega og henni. Ef þið eruð ekki enn búin að sjá þessa mynd þá skluluð ekki ekki hugsa ykkur tvisvar um hvað skal næst sjá í bíó. Látið horbjóð eins og Sanctum og The Dilemma í friði og farið á eitthvað sem er þess virði að borga 1200-og-eitthvað krónur inná.

.:BÓNUSATRIÐI:.

EINNA TÖKU BÍLVELTA
(Let Me In)

Mynd sem fékk alltof litla athygli vegna þess að flestir afneituðu henni fyrirfram og sögðu að hún væri bara 100% afrit á sænsku myndinni án þess að hafa séð hana. Mér fannst Let Me In virkilega góð vegna þess að hún tók þessa sömu sögu og betrumbætti hana. Besta atriðið sem bætt var við var samt massívt flott bílveltusena sem öll er sýnd í einu skoti. Mjög sterk sena. Óþægileg, vel gerð og setur mann alveg í spor persónunnar.

PS. Ég hef ekki ennþá séð A Serbian Film svo ég hef ekki hugmynd um hvort hún ætti erindi hingað eða ekki, í annan hvorn flokkinn.

Sé ykkur fljótlega með bestu og verstu myndir síðasta árs.

B.Kv.
T.V.