Endurlit: Resident Evil – Afterlife

Það er ansi sniðugt af Paul W.S. Anderson að skreyta nýjustu Resident Evil-myndina með metnaðarfullri þrívídd til að fela það fyrir áhorfendum sínum hvað hún er í rauninni mikið sorp. Það sorglega er samt að gimmick-ið nánast virkar, en alveg eins og tilfellið var áður þá nær metnaðurinn aldrei mikið lengra út fyrir útlitið og græjublætið. Þetta fannst mér langmest áberandi í fyrstu Resident Evil-myndinni (Anderson leikstýrði henni einnig en ekki síðustu tveimur) og annað en það sem meirihlutanum finnst þá hata ég þá mynd af ástríðu og finnst hún hingað til enn vera sú leiðinlegasta. Önnur myndin, Apocalypse, fannst mér vera mun skárri. Hún virtist ná því betur að myndir byggðar á tölvuleikjum (sérstaklega SVONA leikjum) eiga einungis að vera hraðskreiðar og brjálaðar í stað þess að reyna að byggja upp spennu með útpældum strúktúr eða leggja áherslur á persónur sem okkur er slétt sama um. Endirinn á henni var samt veikur og einhvern veginn leiddi það til þess að égnennti aldrei að sjá þriðju myndina fyrr en rétt áður en þessi kom út. Hún var ekkert sérstök heldur. Afterlife liggur nú fyrir framan mig , og ef einhver myndi spyrja hvað hún hefði upp á að bjóða sem hinar gerðu ekki (burtséð frá þrívíddinni, að sjálfsögðu), þá er því ekki svarað betur en: Ekki nokkurn skapaðan hlut.

Það eru sumir þunnildisleikstjórar sem vita fullkomlega hvað hentar þeim best. Menn eins og t.d. Robert Rodriguez og Michael Bay sérhæfa sig einungis í afþreyingarmyndum, halda sig frá öllu öðru og finnst ekkert að því. Anderson vill svo mikið vera þannig leikstjóri, en einhvern veginn er hann bara alltof grunnur þegar kemur að hæfileikum eða hugmyndaflugi – svipað og Stephen Sommers en bara einfaldari og ódýrari. Þar að auki er Sommers sjaldan að reyna að sjá til þess að 12-15 ára drengir reyni að fitla við sig á meðan sýningu stendur. Nánast allar myndirnar Andersons eru klisjukenndar, þurrar og alveg sama hversu mikið er að gerast í þeim þá vantar alveg rafstuðið til að gera fjörið þess virði að sitja yfir. Ég skal gera undantekningu fyrir Death Race og Mortal Kombat því þær tóku sig ekki eins alvarlega og aðrar myndir eftir hann. Resident Evil ætti að vera þannig, en af óskiljanlegum ástæðum hallast þessar myndir meira að því að reyna að vera „töff“ og óhugnanlegar í stað þess að vera bara heiladautt hasarflipp. Apocalypse var einmitt þannig, af hverju gat Afterlife ekki verið svoleiðis líka?

Öðruvísi tónn hefði samt ekki getað gert þetta handrit eitthvað þolanlegra. Það er nefnilega orðið langt síðan ég seinast sá mynd sem fer með áhorfendur sína eins og þeir séu gjörsamlega þroskaheftir. Það eru svo mörg göt í söguþræðinum að þessu sinni að hausinn á vitibornum manni mun verkja illilega eftir sýningu. Anderson heldur að við séum ekkert að velta okkur upp úr ýmsum lógíugöllum eða augljósum feilum í frásögninni. Af hverju ætli hann haldi það?? Nú, auðvitað því myndin á að vera svo skemmtileg að þannig hlutir skipta ekki máli! En um leið og maður er kominn með atriði þar sem persóna flýgur einhverri rellu frá Japan og svo til Alaska og síðan Kaliforníu án þess að fylla á bensín inn á milli, þá er eins og gert sé ráð fyrir því að við kunnum ekki landafræði. Það er samt frekar smámunasemi en annað. Það sem böggar mig meira er að sama persóna átti að hafa lifað heila sprengingu af þegar hún var áberandi sögð ekki vera með neina ofurkrafta. Þetta gerist tiltölulega snemma, og ég tek það fram að þessi persóna hafi verið stödd inni í flugvél þegar hún sprakk. Aldrei er minnst á þetta. Það er bara klippt yfir í næstu senu eins og ekkert sé eðlilegra. Öh, ha?

Afterlife er samt ekki einungis pökkuð svona senum, heldur er hún bara yfirborðskennd og þreytt á allan hátt. Það fer líka sjúklega í mig hve mikið er reynt að fegra hverja einustu persónu eins mikið og hægt er, enda þarf bókstaflega allt á skjánum að líta vel út. Það líta ALLIR út eins og þeir séu módel (og menn eru óvenju snyrtilegir og vel meikaðir miðað við heimsendaaðstæður), og þeir fáeinu sem gera það ekki eru stereótýpur sem maður veit að eiga eftir að deyja. Samtölin eru fyrir neðan allar hellur og að mínu mati er alltof mikið af þeim miðað við hvað söguþráðurinn er þunnur. Þegar horft er á Resident Evil-mynd þarf að vera stutt í hasarinn (enda er þetta gert fyrir unglinga og ADHD-hópanna), annars mun maður bara geispa og stara út í loftið. Hasarinn í myndinni er nokkuð góður á köflum og ég skal meira að segja játa að fyrstu 10 mínúturnar gripu mig býsna sterkt, en síðan dalar myndin – nánast með hverri mínútu – og þegar líður að lokum fer hún að verða sífellt barnalegri og kjánalegri. Slow-mo rúnkið var líka orðið herfilega þreytt því lengra sem á leið og ljóst er ljóst að Anderson hafi ákveðið að vera með eitthvað massívt Matrix-þema út alla myndina. Get ekki sagt að það hafi komið vel út. Úrelt er ekki alveg rétta orðið, heldur myglað. Ég hélt líka að svarta sólgleraugna- og frakkaæðið væri löngu, löngu dautt.

Milla Jovovich lítur vel út (enda fylgir það djobbinu) en hún er ekki alltaf eins kúl og hún eða eiginmaðurinn hennar (Anderson!) virðist halda. Mér tekst varla að sjá neitt annað en ofurmódel að sveifla byssum í ofbeldissenum sem eiga sér engar varanlegar afleiðingar, nema eingöngu hjá aukapersónunum. Annars, ef þú ert á þeirri skoðun að hinar þrjár myndirnar séu eitthvað GJÖÐ-VEIKAR (megi guð hjálpa þér ef svo er) þá muntu alveg pottþétt fíla þessa líka. Ótrúlegt en satt þá er aldrei óhuggulega leiðinlegt að horfa á myndina því þrívíddin gefur henni smá líf og er alveg hægt að segja að hún nái Avatar-standardinum þar. En svo þegar þú tekur það allt saman burt er ekkert eftir nema mynd sem er alveg sláandi lík hinum. Þið metið hversu jákvætt eða neikvætt það er.

Ég HATA samt alltaf þessa „Sequel bait“ enda sem þessar myndir hafa. Finnst markhópnum þetta í alvörunni vera sniðugt en ekki ógeðfellt pirrandi??

 
(4/10)