Craig verður Blomkvist

Daniel Craig,sem þekktastur er fyrir leik sinn í hlutverki James Bond, hefur tekið að sér hlutverk rannsóknarblaðamannsins Mikaels Blomkvist í endurgerð myndarinnar „The Girl With the Dragon Tattoo“, eða Karlar sem hata konur, eins og hún hét hér á Íslandi. Auk þess mun hann leika í framhaldsmyndunum tveimur sem á eftir fylgja, þ.e. Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi, en myndirnar eru byggðar á metsölubókum sænska rithöfundarins Stieg Larson.

Leikstjóri verður David Fincher og Steve Zaillian skrifar handrit. Scott Rudin framleiðir fyrir Sony Pictures framleiðslufyrirtækið.

Eins og við sögðum frá í frétt hér á kvikmyndir.is í gær stendur enn yfir leit að aðalleikkonunni.

Byrjað er að sýna upprunalegu myndirnar sænsku í Bandaríkjunum og verður sú síðasta, Loftkastalinn sem hrundi, frumsýnd þar vestra síðar á þessu ári. Fyrsta myndin hefur þénað 9,6 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og 92 milljónir um allan heim, og önnur myndin hefur þénað 2,9 milljónir dala í Bandaríkjunum og 51 milljón samtals um allan heim.