Pólitísk skautun í WandaVision

Seinustu árin hafa verið áhugaverð og hræðileg. Upprisa öfgahópa víða um heiminn, aðallega á hægri væng, öskra hæst um mestmegnis ímynduð vandamál sem þeir telja ógna eigin tilveru. Sundrungin í samfélaginu víkkar með hverju ári, sem að hluta til er sökum samfélagsmiðla sem stuðla að „búbblu hugarástandi“ (e. bubble mentality), þar sem fólk fær vafasamar upplýsingar og leita til staðfestingar sem styðja eigin heimssýn, stutt af reikniritum hannaðar til þess að þóknast persónuleika notandans. WandaVision er að mínu mati samlíking við þessar búbblutilverur sem dafna á samfélagsmiðlum.

SPOILER VIÐVÖRUN: Þegar þessi grein er skrifuð eru sjö þættir af níu komnir út.

Wanda hefur skapað sér bókstaflega „búbblu“, þar sem hún lifir í gerviveröld eftir eigin smekk. Vision er endurvakinn og þau lifa draumkennt líf í stíl við gamaldags fjölskylduþætti allt frá tímabilinu 1950’s til 2000’s, sem passar við nostalgíuþrá margra varðandi gamalt líferni áður en allt varð flóknara. Undirmeðvitund Wöndu virðist ráða því alfarið hvað kemur í búbbluna og allt sem passar ekki við hennar hugarheim er klippt út eða hunsað. Svo kemur í ljós í sjöunda þætti að utanaðkomandi afl hefur áhrif á hana og virðist reyna að stjórna hvernig hún hugsar og bregst við með að gefa henni tálsýnir um þráir hennar.

Allt þetta smellpassar í hvernig samfélagsmiðlar hafa áhrif á þá sem eru djúpt sokknir í eigin raunveruleika. Handritshöfundar WandaVision hljóta að hafa verið meðvitaðir um þessa samlíkingu, ef ekki, þá er það ótrúleg tilviljun. Mögulega munu afhjúpanir í seinustu tveimur þáttunum breyta þessu en eins og staðan er þá er þetta hrikalega nákvæm samlíking.

Skautunin í félags-og stjórnmálum er eitt alvarlegasta samfélagsvandamál allra tíma, því án samstöðu um mannkynssögu, án samstöðu um staðreyndir raunveruleikans þá getur samfélag ekki starfað né leyst vandamál sín. Útilokunarmenningin, sem er að miklu leyti viðbragð við þessari þróun í samfélaginu, byrjaði sem „call out“ menning í forsetatíð Bush yngri en þróaðist svo í útilokunarmenningu um skoðanir, helst þá Trump-styðjendur. Bilið á milli hópa víkkar enn, útilokunarmenningin verður strangari og öfgahópar verða brjálaðri. Þessi skautun lekur í allar hliðar samfélagsins, þar á meðal kvikmyndagagnrýni og IMDb, stærstu kvikmyndasíðu veraldar. Ég vil samt benda á að ég geri greinarmun á milli þess að vera hægrimaður og að vera öfgahægrimaður. Sama á við um allt stjórnmálarofið.

Eitt skýrt dæmi um þessa skautun á IMDb er þáttaserían Watchmen, sem var sýnd á síðustu mánuðum 2019. Jafnvel mér fannst serían byrja á óstöðugum fæti, fyrstu þættirnir voru vafasamir og ég hafði ekki von á góðu. Það breyttist þó snöggt og serían fór hratt á flug með einstaklega vel skrifuðum og grípandi þáttum.

Áður en einn stakasti þáttur var kominn út hins vegar, þá var strax nú þegar búið að hamra á stjörnugjöfinni á IMDb og ekki leið á löngu þar til gagnrýnisumfjallanir hötuðu seríuna fyrir að vera slæmur, vinstrisinnaður áróður. Þetta tók langan tíma að leiðrétta sig þar sem serían byrjaði kringum 6,5 en jókst í 8,1. Hins vegar, ef litið er á þættina sem staka þá eru einkunnargjafir kringum 8 til yfir 9, sem að mínu mati endurspeglar réttilega hvað þættirnir eiga skilið.

Fyrir marga var fyrirfram búið að ákveða að þetta væru áróðursþættir „wokeisma“, mögulega drifið af þeirri staðreynd að aðalpersónan er þeldökk kona að leika persónu í valdastöðu innan lögreglunnar. Það var einnig sterklega gefið í skyn frá fyrsta þætti að Ku Klux Klan og rasistahópar myndu eiga stóran þátt í sögunni. Guði sé lof ef talað er illa um Klanið eða rasistahópa, það er bara í pólitískum ásetningi, ekki satt?

Tökum annað dæmi; Netflix-heimildarmyndin Disclosure um transmálefni í BNA. Í fyrstu tók ég eftir umfjöllunum að ásaka myndina um heilaþvott til barna og að samþykkja „andlegan sjúkdóm“ sem eðlilegan. Mikið af mannkyninu hefur víst lítið lært frá réttindabaráttu samkynhneigðra á sínum tíma, þegar sömu gagnrýni um „ónáttúruleika“
og „heilaþvott til barna“ birtust í samfélagsumræðum.

Flestar þessar umfjallanir eru nú horfnar, eyddar af notendum eða stjórnendum IMDb. Rétt eins og Watchmen, þá byrjaði einkunnargjöfin lágt en hækkaði stöðugt seinna meir. Innihald Disclosure hefur þó ekkert með þessar gagnrýnir að gera, myndin gaf einungis þef af hvað fólk sem er trans eða flokkar sig ekki sem kynbundið þarf oft að ganga í gegnum, svipað og samkynhneigðir gerðu og gera enn í dag að einhverju leiti. Satt að segja þá er þessi gagnrýni ekki alfarið skipt eftir pólitík, ég sé fólk frá öllum hliðum taka að sér gagnrýni á transfólk sem í besta falli mættu teljast barnalegar, en háværa öfgahægrið er meira áberandi.

Tökum glænýtt dæmi, þáttaserían Amend: The Fight For America með Will Smith sem kynni. Serían fjallar um fjórtanda viðauka bandarísku stjórnaskránnar sem lofar öllum innfæddum sömu borgararéttindi. Samdægurs og serían var komin út voru strax komnar stjörnugjafir og umfjallanir, á bókstaflega augnablikinu og það var opinbert á Netflix. Þetta eru sex þættir, klukkutíma langir hver, enginn getur horft á það allt svo hratt og ekkert lak á netið fyrirfram. Ef litið er á skjáskotin af þessum gagnrýnum, þær eru ekki margar, en eru mjög upplýsandi um hugsunarhátt margra IMDb-notenda sem skíta yfir efni byggt á tilfinningalegri heimssýn frekar en á verðgildi innihaldsins.

Ekki ein einasta gagnrýni talar um efnið sjálft, og skautunin er mjög áberandi og dæmigerð. Þarna er meirihlutinn 1-2 stjörnur og tvær tíur sem virðast vera þarna bara til að berjast gegn neikvæðu gagnrýnunum. Hins vegar talar engin umfjöllun um efnið sjálft, jákvæð eða neikvæð. Ein gagnrýnin byrjar „It would seem like a person who hates America and everything it stands for would just move to a country that better suits their tastes.“ Þetta er týpískt öfgahægrihjal sem sýnir greinilega fáfræði ekki bara um innihald þáttanna heldur um sögu þrælahaldsins og afleiðingar þess. Aðeins MAGA notandi/tröll sem styður Trump myndi skrifa svona þvælu og áframhaldandi gagnrýnin segir ekkert um innihald seríunnar.

Þetta sé ég stanslaust á IMDb, aftur og aftur, öfgahægri skoðanatröll að skíta yfir efni sem þau annaðhvort skilja ekki eða hunsa sem áróðurspólitík þrátt fyrir að vera byggt á staðfestum og gildum söguheimildum. Ég hef séð nokkra þætti úr seríunni nú þegar og þeir eiga sannarlega gagnrýni skilið. Mér finnst þeir reiða sig alltof mikið á frægar stjörnur sem koma með melódramatískt leikin atriði til að segja söguna sem er einfölduð til að þóknast venjulegum Bandaríkjamönnum sem almennt vita lítið sem ekkert um eigin sögu. Hins vegar standa þættirnir sig vel í að benda á hræsnina og óréttlætið sem jaðarhópar BNA, sérstaklega þeldökkt fólk hefur þurft að ganga í gegnum fyrir og eftir borgarastyrjöldina. Sögulegar staðreyndir eru ekki misnotaðar, ef eitthvað þá finnst mér þættirnir hlaupa yfir margar mikilvæga atburði sem skiptu miklu máli í réttindabaráttunum.

Heimildarserían The Reagans (2020) kom út nýlega, fjögurra þátta gagnrýni á Ronald Reagan og forsetatíð hans. Hann er átrúnaðargoð hægrimanna í BNA og víða um heiminn, dýrkaður sem nánast fullkominn einstaklingur sem gat ekkert rangt gert. Jafnvel framsýnir hægrimenn í BNA eins og Arnold Schwarzenegger ennþá dýrka hans tíð sem fyrirmynd. Serían fékk hraun af neikvæðni frá hægrimönnum og öfgahægrimönnum sem merktu seríuna strax sem vinstri áróður „liberal media“, BLM og Antifa fyrir það eitt og sér að gefa í skyn að Reagan hafði álit sem höfðu rasísk einkenni. Jafnvel eftir að upptaka af símtali hans við Richard Nixon þar sem Reagan kallar fólk frá Afríku „dancing monkeys“ er víst ekki nóg til að sýna fram á að Reagan var langt frá því að vera engill. Hægrimenn almennt séð neita að sætta sig við gagnrýni á Ronald Reagan og forsetatíð hans, þrátt fyrir að það sé nóg til að gagnrýna. Það sama er hægt að segja um nánast alla forseta Bandaríkjanna, þar á meðal demókrata eins og Clinton og Obama sem verðskulda gagnrýni einnig. Vörn hægrimanna hefur sú að ósanngjarnt sé að gagnrýna fyrrum forseta byggt á nútímasamhengi, en þetta er ekki rétt.

Fyrrverandi forsetar eru stanslaust gagnrýndir og endurmetnir út frá nútímasamhengi og arfleifð forsetatíð þeirra. Það að Reagan var hluti af repúblikanamenningu sem tók ekki (og ennþá tekur ekki) réttindabaráttur þeldökkra eða jaðarhópa alvarlega er engin réttlæting á aðgerðarleysi hans, sama hver hans persónulega skoðun var. Rétt eins og stríðið gegn hryðjuverkum undir tíð Obama var ekki réttlætanleg því hann erfði það frá Bush og þóttist skyldugur að viðhalda því, með hörmulegum afleiðingum. Clinton skrifaði undir 1994 Crime Bill sem hafði ömurleg áhrif á minnihlutahópa í BNA og afleiðingar þess lifa enn í dag. Enginn forseti er yfir gagnrýni hafinn, en líkt og sértrúarsöfnuður Trumpismans í dag, þá eru margir hægrimenn fastir í blindri Reagan dýrkun sem að miklu leiti stofnaði mörg vandamál sem við upplifum enn í dag, þar á meðal grunninn fyrir Trumpisma. Skilaboð flestra hægrimanna í BNA eru skýr varðandi þetta, það er bannað að gagnrýna Reagan og öll gagnrýni á hann er pólitískt drifin. Demókratar hafa svipaða dýrkun á Barack Obama, hún er ekki jafn útbreidd en jafn óheilbrigð.

Það er auðvitað hægt að hvolfa öllu sem ég hef skrifað hér, hvað með kvikmyndir, þætti og heimildarmyndir sem eru á hægri vængnum en eru rakkaðar niður af vinstrimönnum? Það er ekkert nýtt undir sólinni og auðvitað tíðkast það einnig. Það er þó löng saga af hægrisinnuðum kvikmyndaverkum sem víða enn í dag eru talin meistaraverk, en voru aldrei rökkuð niður á sínum tíma á sama mælikvarða eða dæmd einungis sem pólitískur áróður. Birth of a Nation (1915), Gone With The Wind (1939), Dirty Harry (1971) og jafnvel Taxi Driver (1976) byrjaði sem handrit sem hallaðist langt til hægri. John Milius er þekktur hægrimaður og leikstjóri og ég er mikill aðdáðandi Conan The Barbarian (1982) sem mætti teljast eins hægrisinnuð og það gerist, en tilgangur kvikmynda er ekki að aðhyllast fyrirfram ákveðnar félagslegar stjórnmálaskoðanir. Ég hef nánast ekkert sameiginlegt með John Milius þegar að skoðunum kemur en ég kann samt að meta mikið af því sem hann hefur gert í kvikmyndaiðnaðinum.

Clint Eastwood er annað dæmi um hægrisinnaðan kvikmyndagerðarmann sem fer lítið leynt um það, kvikmyndir hans oftast endurspegla hans skoðanir og lífstíl. Hægrisinnaðar kvikmyndir og kvikmyndagerðarmenn, Frank Capra t.d, hafa fengið mikið svigrúm að skapa sögur sem flokkast undir þeirra heimssýn án þess að vera rakkaðir niður af samfélagshópum í miklum mæli. Í dag þó, er risastór hávær hópur af netverjum að skíta yfir allt sem þeir telja vera „leftist woke“ áróður því það dirfist að tala rétt og beint um alvarleg málefni sem standa á skjön við skoðanir og tilfinningar þeirra. Sorgleg þróun.

Áður fyrr væri hægt að telja allt þetta vera þvæluskrif nettrölla sem vilja skapa rifrildi og reiði sér til gamans, en raunin er ekki svo lengur. Það er hægt að deila um að þessi skautun hafi alltaf verið til, en að samfélagsmiðlarnir gáfu því svigrúm að anda og dreifast um netheiminn á ofurhraða. Staðreyndin er sú að milljónir samfélagsmiðla notenda sogast að heimssjónum sem hafa enga tengingu við raunveruleikann. Þetta fólk fær bjagaðar upplýsingar, síaðar gegnum pólitíska hugmyndafræði og haga sér svo samkvæmt þeim án gagnrýnishugsunar. Ég hef séð þessa þróun eiga sér stað í meira en áratug, stigmagnandi hægt og hægt og núna að koma á verulega rautt svæði. Þetta er ákveðin tegund af skoðanaskautun sem hefur lekið yfir í popp menninguna.

Rétt eins og Wanda mun líklega sætta sig við raunveruleikann og „pop the bubble“, þá þurfum við öll að gera hið sama og ekki lifa í eigin óskhyggju um tilveruna, sama hverskonar pólitík þú fylgir. Það eru engir valkostir um raunveruleikann, það er ekki til minn heimur og þinn heimur, það er tálsýn… og mjög hættuleg tálsýn.