Upphafsreiturinn sem borgaði sig: Á flugi í fimmtán ár

Það blasir fljótt við að Batman Begins er ekki ofurhetjumynd sem hefur verið tjaslað saman af nefnd eða færibandi, heldur er þetta saga frá fólki – þeim Nolan-bræðrum í þessu tilfelli – sem höfðu niðurneglda túlkun á efninu.

Þegar Batman Begins lenti í kvikmyndahúsum um miðjan júní árið 2005 var erfitt að sjá fyrir þau gífurlega mótandi áhrif sem myndin, framhaldið og tónninn áttu eftir að hafa, bæði á ofurhetjugeirann eins og hann lagði sig og feril leikstjórans Christopher Nolan. Fram að þessu hafði Nolan aðallega sérhæft sig í smærri spennutryllum ( Following, Memento og Insomnia) og hann þótti óvenjulegt val á leikstjóra fyrir endurræsingu á Leðurblökumanninum.

Áður en vinkill Nolans kom til umræðu hafði kvikmyndaverið Warner Bros. reynt að koma af stað öðrum túlkunum á sögunni. Frægast er þegar Darren Aronofsky vann að eigin hugmynd að endurræsingu en hann hélt að lokum í sína átt vegna listræns ágreinings við stúdíóið.

Upphafssaga Leðurblökumannsins hafði fram að þessu aldrei verið túlkuð í kvikmynd, né heldur í teiknaðri bíómynd. Nolan taldi nauðsynlegt að nýja túlkunin á persónunni myndi kafa djúpt í upphafið, og segja frá því hvað það var sem gerði að verkum að Bruce Wayne sá sig knúinn til að sigrast á glæpum í dulargervi sem ógnandi leðurblökumaður.

„Batman er sjálfsagt mannlegasta ofurhetjan af þeim öllum. Hann hefur enga ofurkrafta en keyrir á ótrúlegum sjálfsaga. Með það í huga fannst mér réttlætanlegt að segja söguna með jarðbundnum og raunsæjum hætti,“ sagði Nolan í viðtali við Charlie Rose árið sem myndin kom út. Í sama þætti sagðist Christian Bale hafa einungis samþykkt boðið um að leika í myndinni á þeim forsendum að þessi tiltekna Batman-mynd yrði gerólík þeim sem áður höfðu verið gerðar. Tók hann vel í það þegar hann las handritið og sá hversu sterk áhersla var lögð á sálfræðilega og mannlega þáttinn á bakvið Bruce Wayne.

Nolan hefur yfirleitt haldið í þá hefð að vera með bíósýningar á kvikmyndum fyrir leikara og aðra aðstandendur, og reglan er að sýna verk sem eru sterkur innblástur fyrir viðkomandi verkefni leikstjórans. Áður en tökur hófust á Batman Begins hélt hann t.d. sýningu á Blade Runner og sagði við framleiðsluteymi sitt: „Svona ætlum við að gera Batman(-mynd)!“

Frekar en að vera þessi klassíska færibandamynd um skikkjuklædda hetju sem sigrast á skúrkum og felur sig í myrkrinu er þetta umfram allt fullorðinsleg, sálfræðileg og hasardrifin saga um ótta. Ótta við völd, ótta við ábyrgð, ótta við sektarkennd eða ótta við mannlega leðurblöku sem gæti lamið þig á nokkrum sekúndum!

„…fokk­ing kalt á Íslandi“

Ísland hefur alltaf þótt sérlega eftirsótt þegar risarnir í Hollywood eru í leit að umhverfi fyrir framandi plánetur. Með framtíðardramanu Interstellar (2014) var Svínafellsjökull mikilvægur þáttur í nokkrum spennandi hasarsenum. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Nolan naut góðs af þessu svæði, enda var sami tökustaður notaður fyrir Batman Begins tæpum áratug áður.

Tekið var upp við Svína­fells­jökul í vest­an­verðum Vatna­jökli sumarið 2004 en veður setti reynd­ar ­strik í reikn­ing­inn (það var ekki nægur snjór á svæð­in­u!). Jök­ull­inn var stað­geng­ill fyrir Himala­yja­fjöll­in, nán­ar til­tekið litla Mið-Asíu rík­ið Bhut­an. Þar lærir hinn ungi Bruce Wayne all­ar sínar bar­daga­listir af fram­tíðarill­menn­inu Ra’s al Ghul (Liam Neeson).

Christ­ian Bale, sem fer með burðarhlutverkið, var ekk­ert sér­stak­lega hrif­inn af veru sinni hér. „Það er fokk­ing kalt á Íslandi. Og þeir borða hvali – þeir borða hvað ­sem er – lunda.“ Bale, sem er sjálfur mik­ill dýra­vernd­un­ar­sinni, seg­ist einnig hafa verið hræddur um líf sitt við tök­urnar á jökl­inum sem bráðn­aði og brotn­aði undan leik­ur­un­um.

Einvalalið í lifandi hasarblaði

Það vakti mikla athygli þegar framleiðsla Batman Begins hófst hvað Nolan og hans teymi náðu að safna saman miklu úrvalsliði leikara (auk Katie Holmes), meðal annars reyndum fagmönnum eins og Michael Caine, Gary Oldman, Liam Neeson, Morgan Freeman, Tom Wilkinson, Rutger Hauer að ógleymdum Cillian Murphy og vissulega Christian Bale í aðalhlutverkinu.

Einu sinni þótti magnað að sjá einn eða kannski tvo virta gæðaleikara í myndasögubíómynd. Marlon Brando stoppaði t.d. stutt við í fyrstu alvöru Superman-myndinni áður en Gene Hackman tók svo við og dvaldi áfram. Jack Nicholson skellti sér í hlutverk Jókersins með bros á vör og þorsta fyrir taumlausan senustuld. Martin Sheen lék síðan auðvitað vonda karlinn í Spawn (veit ekkert hvernig mér datt sú mynd í hug). Internetið þarf helst að vera duglegra við að minnast á það oftar.

Áhrifin endanleg

Batman Begins sló í gegn í miðasölu á heimsvísu en var þó ekki alveg sá jötunn sem kvikmyndaverið vonaðist eftir. Innkoma var í kringum 370 milljónir Bandaríkjadala og höfðu framleiðendur búist við meiru.

Var þó öldin aldeilis önnur þegar framhaldsmyndin, The Dark Knight, var frumsýnd en hún halaði inn rúmlega þrefalt meira en Begins, eða vel yfir milljarð. Þriðja myndin, The Dark Knight Rises, var heldur ekki lengi að moka inn sambærilegri upphæð og var Nolan þarna endanlega búinn að öðlast traust kvikmyndaversins til að vaða í þær tilraunir sem hann vildi.

Áður en Batman Begins leit dagsins ljós þótti það afar fjarstæðukennt og óvenjulegt að „endurræsa“ þekkt vörumerki fyrir hvíta tjaldið. Á tímabili var útlit fyrir að Superman-myndin frá Tim Burton (já, sú með Nicolas Cage í titilhlutverkinu) yrði fyrst í mark til að ýta á hreinsunarhnappinn og útiloka þau eintök sem á undan komu. Reyndist þá Batman-saga Nolans vera sú fyrsta, ef ekki sú fyrsta til að leggja ákveðnar línur og reglur. Má því segja að það sé Nolan að þakka/kenna að að flóðgáttirnar opnuðust varðandi raunheimatón og hversdagslega nálgun.

Áður en langt um leið var önnur hver stórmynd farin að sækjast í þennan jarðbundna fullorðinsvinkil, án þess að hreinræktuðu bíói væri fórnað. Það tókst aldeilis ekki öllum að mastera formúluna en lengi vel var „dimmt og niðurdrepandi“ orðið að stærsta módelinu fyrir trend í ofurhetjumyndum Hollywood. Það var þó áður en Marvel-stúdíóið náði sívaxandi vinsældum og sýndi að til væri pláss í heiminum fyrir bæði léttmeti og þyngri þemu.

Aldrei hefur verið skortur á lofi í garð Batman Begins og þríleiksins yfir höfuð. En til að gefa smá heildarmynd af þeim áhrifum sem Batman Begins og taktar Christophers Nolan almennt hafa haft á aðra leikstjóra, þá má sjá hér væna upptalningu af nöfnum sem líta á þessa tilteknu túlkun leikstjórans sem innblástur fyrir eigin verk. Um er að ræða leikstjóra, framleiðendur og handritshöfunda sem hafa sérstaklega tilgreint annaðhvort Batman Begins eða The Dark Knight, en á meðal þeirra kvikmyndagerðarmanna eru:

Sam Mendes (Skyfall), Damon Lindelof (Star Trek Into Darkness), McG (Terminator Salvation), Marc Webb (The Amazing Spider-Man), Rupert Wyatt (Rise of the Planet of the Apes), David Ayer (Suicide Squad), James Mangold (Logan), Gareth Edwards (Godzilla), Todd Phillips (Joker), Patty Jenkins (Wonder Woman), Adam Wingard (Death Note), Jon Favreau (Iron Man) og fleiri.

Strúktúr að láni

Eins og flestir vita er staðan orðin þannig í dag að fáir eiga roð í stórrisanna hjá Marvel Studios, en þar óx orðsporið hægt og bítandi og hófst með gífurlegri velgengni fyrstu Iron Man myndarinnar frá 2008. Það leynir sér þó ekki hvernig sú mynd ákvað að fá ýmislegt lánað frá þeirri sömu beinagrind og Batman Begins bjó yfir. Jafnvel má ganga svo langt að segja að strúktúrinn sé hreint og beint stolinn og borinn fram með hressara, auðmeltanlegra sniði – og aðeins kátari titilhetju.

Ef þú hefur aldrei skoðað furðuleg líkindi þessara tveggja bíómynda fylgir hér með dæmi um samantekt sem sýnir nákvæmlega hversu líkar þessar tvær bíómyndir eru, alveg upp að sameiginlegri tímasetningu helstu punkta atburðarásarinnar.

Krufningin er beint tekin úr Bíótalsþætti frá 2010 og brýtur upp þetta helsta á einni mínútu.