Einlægur Stjóri og vegferð hans

Í júnímánuði síðastliðnum gaf Bruce Springsteen út „Western Stars“, sína nítjándu plötu. Springsteen, oft kallaður Stjórinn, fagnaði 70 ára afmæli sínu á þessu ári og er þessi nýjasta plata kappans mikil sjálfsskoðun í formi karaktera sem fangað hafa huga hans í gegnum árin. Stjórinn ætlar sér ekki að leggja í tónleikaferð til að kynna plötuna en gefur út þess í stað myndina „Western Stars“ sem hann leikstýrir ásamt Thom Zimny. Myndin er blanda af nánum tónleikum í hlöðu sem er í eigu Springsteen og einræðum þar sem hann kafar ofan í innblásturinn að lögunum og hvernig þau eiga hliðstæðu í hans eigin tilveru. Þrátt fyrir smæð vettvangsins er heil strengjasveit ásamt hljómsveit með Springsteen og eiginkonu hans Patti Scialfa.

Töluverð fortíðarþrá

Stjórinn veltir sér mikið upp úr þörf fólks fyrir persónulega tjáningu og einstaklingshyggju en að sama skapi er þörfin fyrir félagsskap, ástúð og fjölskyldunánd ekki síður mikilvæg. Ákveðin togstreita myndast í þessu samhengi og árekstrar óhjákvæmilegir og marka þeir vegferð einstaklinga í lífinu. Sum lögin af plötunni finna sér birtingarmynd í formi tilbúna persóna. B-mynda leikarinn í titillaginu horfir yfir farinn veg með smá trega en er þakklátur fyrir alla litlu hlutina í lífinu og fyrst og fremst fyrir það að fá að eldast. Áhættuleikarinn í „Drive Fast (The Stuntman)“ nærist á að leggja líf og limi í hættu en er hræddur þegar kemur að persónulegri nánd. Þar sem „Western Stars“ er hálfgerð kántríplata er vissulega drepið á hinum eilífa flakkara sem hvergi festir rætur en hjá Springsteen er alltaf viss tregi sem fylgir þannig tilveru þegar  horft er til baka. Einnig er töluverð fortíðarþrá og söknuður rauði þráðurinn í sumum lögunum.

Sum lögin virka ennþá persónulegri og með inngangsorðum Stjórans að þeim fer ekki á milli mála hve mikil sjálfsskoðun er á ferðinni. Hann viðurkennir að hafa sært viljandi alla þá sem honum hefur þótt vænt um og tæklar slíka eftirsjá og vegferð í „Chasing Wild Horses“ og „Stones“ og baráttu við þunglyndi í „Hello Sunshine“ svo dæmi séu tekin. Játningar eins og þessar ýta undir þörf Stjórans fyrir tjáningu en öll þessi vegferð hefur leitt hann á ákveðinn stað í tilverunni þar sem samheldni og fjölskylda standa uppúr. Springsteen er, og hefur lengi verið, sögumaður og hér deilir hann reynslu sinni sem er uppfull af mistökum, hliðarsporum og miklum lærdómum.

Boðskapur á erindi

Það er óhætt að mæla með myndinni „Western Stars“ en hún er vel unnin í alla staði; kvikmyndataka af mikilli víðáttu skapar góða stemningu fyrir inngang að hverjum flutning og öll tæknivinnsla er varðar hljóð er fyrsta flokks. Erfitt er aftur á móti að mæla með einni tegund af tónlist umfram aðra en boðskapurinn hér ætti að eiga erindi við marga og því eru góðar líkur á að hlutlausir gangi sáttir frá. Springsteen unnendur fá mikið fyrir sinn snúð og þarf vart að taka það fram.

Að lokum má taka fram að það er sérstök upplifun að fylgjast með tónleikum, stórum eða smáum, í kvikmyndasal. Tónlistin stillt hátt, ekkert hlé og ótrufluð einbeitingin kemur öllum boðskap til skila. Óskandi væri að fleiri tónleikar skiluðu sér í kvikmyndahús.