Lifði af vegna þrjósku

Samhliða því sem neysla á afþreyingarefni er að færast nær alfarið yfir á stafrænt form, á streymisveitur eins og Netflix, Hulu, Amazon Prime, Sjónvarp Símans og Vodafone, þá hafa vídeóleigur landsins týnt tölunni ein af annarri. Nú er svo komið að aðeins ein slík er eftir, Aðalvídeóleigan á Klapparstíg.

Eysteinn Guðni Guðnason, sem lengi hefur verið áhugamaður um kvikmyndir og vídeóleigur, leit við í Aðalvídeóleigunni fyrir skemmstu í þeim tilgangi að búa til sýndarferð um staðinn, til að varðveita minninguna um þessa merku leigu, og til að eiga stutt spjall við eigandann, Reyni Guðmundsson. Að mati Eysteins er Aðalvídeóleigan skemmtileg leiga, enda sé þar að finna ótrúlega gott úrval af gæðamyndum. Eysteinn segir að ennþá sé til mikill fjöldi af fólki sem vill geta gramsað í hillum og skoðað kápur. Í Aðalvídeóleigunni séu margar myndir sem hvergi fáist annarstaðar.

Hér á eftir er spjall Eysteins við Reyni:

Hvenær opnaði Aðalvídeóleigan?

„Það er flókið svar. Ég er ekki fyrsti eigandinn. Kannski voru fimm eða sex eigendur áður. Leigan hefur verið starfrækt í áratugi, fyrir utan að vera sú síðasta er hún sennilega líka ein sú elsta.“

Afhverju lifði þessi vídeóleiga lengur en allar hinar?

„Það er nú bara þrjóska, en svo er þetta líka besta úrvalið.“

Hvað eru margir titlar á skrá?

„Rétt um 30.000 titlar. Markmiðið er að ná myndum frá öllum heimshornum. Mér finnst ekkert ómerkilegra en annað í þeim efnum. Ég hef bókstaflega keypt allt sem við höfum getað náð í, þannig er engin ein stefna er í innkaupum, heldur er allt áhugavert. Ég á mörg þúsund myndir sem ég hef ekki sjálfur áhuga á að sjá. Allir hafa sinn smekk og við reynum að hafa eitthvað fyrir alla.“

Hvaðan koma viðskiptavinirnir aðallega?

„Þeir koma víða að, ekki bara frá höfuðborgarsvæðinu heldur líka alla leið frá Selfossi.“

Afhverju heitir hún Aðalvideoleigan taka tvö á Facebook?

„Ég seldi Aðalvideóleiguna og átti hana ekki í fimm ár, en keypti hana svo aftur. Þannig að þetta er taka tvö.“

Hvað ætlar þú að vera með opið í mörg ár í viðbót?

„Ég vil varpa þeirri spurningu fram til allra sem eru að lesa þetta. Það eru aðrir sem ráða þessu en ég. Það eru þið sem ráðið þessu. Og ég þakka öllum þeim sem hafa sýnt þessu áhuga.“

360 gráðu sýndarferð um Aðalvídeóleiguna

Sýndarferð Eysteins, sem minnst var á hér á undan, er röð af 360 gráðu myndum sem tengdar eru saman svo hægt er að skoða sig um í allar áttir og ferðast um staðinn.

Eysteinn Guðni sérhæfir sig í sýndarferðum en hægt er að kynna sér þjónustu hans á www.eysteinngudni.com

Smelltu hér til að skoða sýndarferðina.