Nú er útlitið svart

Leynilegu samtökin Mennirnir í svörtu hafa ávallt verndað mannkynið fyrir utanaðkomandi ógnum og viðhaldið algerri leynd samhliða því.

Nýjasta viðbótin í njósnarateymið, Fulltrúi M (Tessa Thompson) aðstoðar Fulltrúa H (Chris Hemsworth) í að hafa upp á öflugu vopni sem getur þurrkað út jörðina og er því stórhættulegt í röngum höndum. Einnig er talið að svikari gæti leynst í eigin röðum og því leynast hættur alls staðar.

Men In Black“ þríleikurinn (1997-2012) með þeim Tommy Lee Jones og Will Smith var frekar vel heppnuð samsuða af villtum húmor og hasar með vísindaskáldsögublæ sem sótti innblásturinn í myndasögublöð eftir bandaríska rithöfundinn Lowell Cunningham. Fyrsta myndin þótti sérlega vel heppnuð og eldist hún einkar vel þrátt fyrir miklar framfarir í tæknibrellum þökk sé góðri sögu og mjög skemmtilega samsettum samtölum ásamt fantagóðum frammistöðum Smith & Jones.

„Men In Black: International“ endurræsir myndabálkinn með nýju teymi; Hemsworth & Thompson og sýnir fram á að hætturnar leynast víða í heiminum og hér gerast herleigheitin í Frakklandi, Englandi, Ítalíu og Marokkó. Á meðan endurræsing á þessum myndabálki er fín hugmynd ein og sér þá er hér um afar þunnan þrettánda að ræða þegar kemur að efnivið. Myndin hefur ekki neitt frumlegt fram að færa sem viðbót við „Men In Black“ umheiminn og endurvinnur m.a.s. marga brandarana sem upprunanlegi þríleikurinn kom með. Nýja teymið; Hemsworth & Thompson eru frekar óáhugarverðar persónur (a.m.k. þegar þau er borin saman við Smith & Jones) og handritið hér er þunnt og rislítið. Hemsworth hefur sýnt það í hlutverki sínu sem þrumuguðinn Þór að hann getur verið hreint stórkostlegur grínleikari en hann er háður því að efniviðurinn sé góður og línurnar sem hann fær séu vel skrifaðar til að hann líti sem best út. Hér er engu líkara en hann hafi fengið að spinna þær á staðnum og samleikur hans við Thompson er alltaf frekar stirður og gervilegur. Thompson fær smá baksögu til að vinna með og hennar karakter er með örlítið meiri persónuleika en á endanum er hún álíka eftirminnileg og Hemsworth. Mikið af húmornum er einstaklega kjánalegur og langsóttur en fyrst og fremst er hann mjög hugmyndasnauður. Það er líklega höfuðsyndin í þessu öllu saman.

Það sem bjargar „Men In Black: International“ fyrir horn er vel samsett hliðarplott (sem í rauninni rammar inn alla myndina) sem byrjar myndina og slúttar henni. Það er virkilega góður endasprettur hér sem sannar að það var, eftir allt saman, ágætis grunnhugmynd á bak við söguna og „lokatwistið“ er ófyrirséð og vel afgreitt. Þó svo að undirliggjandi ráðgátan um hver sé svikarinn í samtökunum er frekar gegnsæ þá kemur allt heim og saman á fullnægjandi máta. En þegar mynd losar tvo tímana er hæpið að segja að góð byrjun, góður endasprettur og góð grunnhugmynd þýði góð mynd þegar allt í millitíðinni veldur vonbrigðum.

Það er gaman að sjá gömlu fagmennina Emmu Thompson og Liam Neeson og sér í lagi stendur sá síðarnefndi sig vel. Tæknibrellur eru hreint frábærar og myndin lítur mjög vel út með aðlaðandi umhverfi og góðu sjónrænu flæði. En Hemsworth & Thompson gefa ekki góð fyrirheit sem nýtt dúó í þessum skrautlega heimi geimvera og mannfólks og handritshöfundarnir Matt Holloway og Art Marcum þurfa að fylla betur inn í millikaflana hjá sér. Annars er útlitið svart fyrir áframhaldandi ævintýri hjá Mönnunum í svörtu.

Men In Black: International (2019)

Leikstjóri: F. Gary Gray

Handrit: Matt Holloway og Art Marcum. Byggt á persónum eftir Lowell Cunningham

Leikarar: Chris Hemsworth, Tessa Thompson, Liam Neeson, Rafe Spall og Emma Thompson