Þrælskemmtileg forsaga Han Solo

Í stuttu máli er „Solo: A Star Wars Story“ þrælskemmtileg afþreying uppfull af frábærum hasaratriðum, skemmtilegum persónum og góðum húmor.

Han Solo var alltaf óskrifað blað í upprunanlega „Star Wars“ þríleiknum og lítið vitað um hann. Engu púðri var eytt í að gefa honum baksögu annað en allir vissu hvernig hann fékk geimskipið Fálkann og að hann hefði komist í gegnum svokallað „Kessel run“ á innan við 12 „parsecs“, hvað sem það nú er. Jæja, nú vitum við að „parsecs“ vísar til lengdar en ekki tíma og við sjáum fleiri atvik úr lífi Hans áður en hann komst í kynni við Loga Geimgengil og Obi-Wan og varð beintengdur uppreisninni gegn illa Veldinu.

Han (Aldren Ehrenreich) elst upp við erfið lífsskilyrði á plánetunni Corellia þar sem megnið af íbúunum vinna hálfgerða þrælavinnu við að búa til geimskip. Hann dreymir um lífið í geimnum og vill ekkert heitar en að verða flugmaður og lifa frjálsu lífi. Hann grípur tækifærið þegar það býðst og sleppur frá plánetunni en verður viðskila við æskuástina Qi‘ru (Emilia Clarke) sem er handsömuð við flóttatilraunina. Fljótlega kemst hann í kynni við Chewbacca (Joonas Soatamo) og upphefst ævilangur vinskapur sem aðdáendur þekkja vel en einnig hefst samstarf við þjófinn og smyglarann Beckett (Woody Harrelson) sem gefur Han nasasjón af lífinu sem hann aðhyllist og á endanum kýs. Á ólíklegasta staðnum hittir Han Qi‘ru á nýjan leik og hún slæst í för með þeim í hættulegan leiðangur fyrir stórfellda glæpamanninn Dryden Vos (Paul Bettany). Á vegi þeirra verður svo Lando Calrissian (Donald Glover) og grunnurinn er lagður að stormasamri vináttu við Han og ákveðinn Fálki kemur mikið við sögu.

Litla dramatík er að finna í myndinni en ljóst er að Han upplifir sig sem hálfgerðan munaðarleysing og upp úr því kemur skondin tilurð nafnsins Solo. Þrátt fyrir að eyða rúmum tveimur klukkustundum í að fylgjast með upprunasögu hans er áhorfandinn litlu nær um persónuna og hvað mótaði hann annað en hrein þrá í rótlausa tilveru. Styrkleikur „Solo: A Star Wars Story“ felst í einfaldri framreiðslu á mikilli skemmtun og ævintýramennsku.

Fyrri hliðarsagan á Star Wars, „Rogue One“ (2016), græddi á því að fjalla um viðburð sem rétt var drepið á í fyrstu Star Wars myndinni, „A New Hope“ (1977), og því voru möguleikarnir miklir fyrir frumlega sögu sem lumaði á óvæntri framvindu. „Solo“ er aftur á móti með ákveðinn tékklista sem þarf að tikka í og koma á sama tíma með eitthvað sem áhorfandinn veit ekkert um. Allir vita í grófum dráttum hvernig þetta allt saman fer og því þarf mesta púðrið að fara í hreinræktaða skemmtun. Og „Solo“ er þrælskemmtileg ævintýramynd í alla staði með frábærum hasaratriðum, miklum húmor og skemmtilegum persónum.

Það kemur kannski eilítið á óvart hvernig sjónrænni stíllinn er leystur af hendi en „Solo“ er frekar dimm mynd (sérstaklega fyrri parturinn) en þegar áhorfandinn venst því er yfir litlu að kvarta. Brellur, tölvugerðar og handgerðar, eru fyrsta flokks og sérstaklega glæsilegt er atriði þar sem Han og samherjar leggja í ránsleiðangur á flutningslest í snævi þöktu umhverfi. Í raun er mikill vestrafílingur á „Solo“ út í gegn og smá Indiana Jones líka. 

Ehrenreich tekur sig vel út í hlutverki Han Solo og allir aðrir standa sig mig prýði. Harrelson er sem fyrr stórskemmtilegur og Glover er hálfgerður senuþjófur sem ungur Lando Calrissian. Það er helst að Clarke eigi erfitt með rullu sína en persóna hennar er eitt stórt spurningarmerki allan tímann.

Það virðist sem „Star Wars“ myndabálkurinn sé í smá krísu. Lítil stemning hefur myndast fyrir „Solo“ og fyrstu tölur bera merki um dræma móttöku vestanhafs. Skipt var um leikstjóra eftir að ferlið hófst og tók Ron Howard við stjórnartaumunum og einhverjir leikarar voru fengnir til liðs á síðustu stundu (þar á meðal Paul Bettany sem Dryden Vos). Eftir að áttunda myndin („The Last Jedi“) í upprunanlegu myndabálknum sló öll met rétt fyrir áramót hefur myndast töluverð mótspyrna frá mörgum hörðum Star Wars unnendum varðandi stefnu hans og margir hafa kvatt til þess að „Solo“ yrði hunsuð. Vonast þeir til að Kathleen Kennedy, framleiðandi hjá Disney, verði vikið frá starfi og þar með hent út úr Star Wars heiminum.

Hvernig svo sem það drama endar kemur það lítið niður á skemmtigildi „Solo“ sem er þrælgóð afþreying þrátt fyrir mikil vandræði á bak við tjöldin.