Meira af Ofurmenninu á Blu

Næstkomandi 3. október munu bandarísku Blu-ray útgefendurnir hjá Warner Archive Collection sleppa lausri „Superman: The Movie“ (1978) með þeim Christopher Reeve, Marlon Brando og Gene Hackman. Unnendur Ofurmennisins munu þó vafalaust í fyrstu velta fyrir sér hvað sé merkilegt við það þar sem nokkrar Blu-ray útgáfur hafa þegar litið dagsins ljós (þ.á.m. viðhafnarútgáfa Richard Donner‘s leikstjóra) en ljóst er að með þessari hefur bænum margra unnenda loks verið svarað. Hér er um að ræða þriggja klukkustunda útgáfu af myndinni með rúmlega 40 mínútum af áður óséðu efni; í að minnsta kosti þrjátíu og fimm ár.

Forsagan er löng og verður stiklað á stóru. Þann 7. og 8. febrúar árið 1980 efndi sjónvarpsstöðin ABC til tveggja kvölda viðburðar þegar „Superman: The Movie“ var frumsýnd í sjónvarpi tæpum tveimur árum eftir að hún var í bíóhúsum. Útgáfan sem prýddi kvikmyndahúsin var 143 mínútur að lengd en sú sem var sýnd á ABC var 188 mínútur og skipt í tvo hluta. Umrædd aukaatriði dreifast um alla myndina og ljóst er að meira mun sjást frá plánetunni Krypton, Smallville, Metropolis og fleiri atriði með Clark Kent (Reeve), Jor-El (Brando), Lex Luthor (Hackman) og Lois Lane (Margot Kidder).

Þessi sjónvarpsútgáfa af „Superman: The Movie“ hefur löngum verið eftirsótt af mörgum unnendum  en síðast var hún sýnd í nóvember árið 1982 og hefur bara verið að safna ryki síðan. Flestir áttu ekki einu sinni upptökutæki á þessum tíma og því hefur hún einungis lifað í minningu þeirra sem börðu hana augum forðum daga. En ekki lengur og aðdáendur geta nú hlakkað til þess að sjá meira af forsögu, uppvaxtarárum og ævintýrum Ofurmennisins í túlkun Christopher Reeve sem margir telja hinn eina sanna Stálmanninn.

Þess má geta að viðhafnarútgáfan sem kom út árið 2000 (og er um 151 mínúta að lengd) fylgir einnig með í þessari tveggja diska Blu-ray útgáfu og þar er að finna mikið magn af aukaefni eins og yfirlestur, heimildarmyndir sem greina frá litríkri sögu um gerð myndarinnar og framhaldsins ásamt fleiru.