Týnd slægja með Mickey Rooney væntanleg á Blu

Ástsæli grínistinn Mickey Rooney lék í meira en 300 myndum á sínum langa ferli en ein slægja með honum virðist hafa komið og farið án þess að nokkur tæki eftir…þar til nú.

Það er ekki oft að útgáfufyrirtæki nái að grafa upp virkilega týndan grip en sú virðist vera raunin með „The Intruder“ (1975) sem skartar þeim Rooney, Ted Cassidy (Lurch í „The Addams Family“) og Yvonne De Carlo (Lily Munster í „The Munsters“) meðal leikenda. Myndina er ekki að finna inn á Wikipediu og inn á IMDB vantar fimm atkvæði til að hægt sé að gefa einkunn.  Einnig eru Yvonne De Carlo og Ted Cassidy ekki getið í leikaraupptalningunni þar en nöfn þeirra sjást greinilega á plakatinu.

Samkvæmt blu-ray.com snýst myndin um græðgi, morð og „órökrétta geðveiki“! en óséður ódæðismaður situr um ellefu gesti á afviknum stað á eyðieyju. Bandaríska útgáfufyrirtækið Garagehouse Pictures mun gefa „The Intruder“ út í 4K háskerpu og diskurinn inniheldur yfirlestur og viðtalsbút við leikstjóra myndarinnar Chris Robinson, sem einmitt er meðal leikenda í myndinni.

Einu upplýsingarnar um myndina er að finna á vefmiðlinum horrorsociety.com. „The Intruder“ virðist hafa kostað um 25.000 dollara í framleiðslu (sem er mjög lítil fjárhæð meira að segja árið 1975) en einhvern veginn tókst Robinson að fá þessi þekktu nöfn til liðs við sig. Myndin fékk enga dreifingu í kvikmyndahúsum vegna deilna við dreifingaraðila og eina filmueintakið glataðist áður en myndir voru gefnar út á VHS spólum.  Þar sem eina eintakið virtist vera glatað var talið að þessi mynd myndi hreinlega aldrei líta dagsins ljós. Til bjargar kom safnari að nafni Harry Guerro sem fann 35 millimetra filmueintakið í geymslu í skúr. Enginn var kátari en leikstjórinn sjálfur og nú er „The Intruder“ væntanleg á Blu-ray seinna á árinu.

Slægjuunnendur hljóta að bíða spenntir eftir þessari og fróðlegt verður að fá baksöguna frá leikstjóranum.