Tvær nýjar í bíó – Logan og Stóra stökkið

Tvær nýjar myndir koma í bíó frá Senu nú á föstudaginn 3. mars: Logan og Stóra stökkið.

Kvikmyndin Logan, lokamyndin um X-Men hetjuna Wolverine, verður frumsýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Egilshöll og Borgarbíói, Akureyri.

Myndin gerist í náinni framtíð. Logan er að niðurlotum kominn en þarf að hugsa um hinn heilsulitla Prófessor X þar sem þeir fela sig nærri landamærum Mexíkó. Tilraun Logans til að flýja heiminn og arfleifð sína mistekst þegar ung stúlka með stökkbreytta hæfileika, sem elt er uppi af illum öflum, kemur inn í líf þeirra.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Leikstjórn: James Mangold

Helstu leikarar: Hugh Jackman, Boyd Holbrook og Patrick Stewart

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– Logan var forsýnd erlendis rétt áður en þetta blað fór í prentun og hlaut samstundis frábæra dóma gagnrýnenda og toppmóttökur almennra áhorfenda, t.d. á Imdb þar sem hún rauk upp í 9,5 í einkunn.

– Þetta er í síðasta sinn sem þeir Hugh Jackman og Patrick Stewart leika þá Logan og Charles Xavier. Um leið er þetta þriðja og síðasta myndin í trílógíunni um Logan en fyrri myndirnar voru eins og flestir
vita X-Men Origins: Wolverine (2009) og The Wolverine (2013).

-Það hefur vakið mikla athygli að í fyrstu stiklunni úr Logan hljómar lagið Hurt undir í flutningi Johnnys Cash og í stiklu númer tvö hljómar lagið Way Down We Go með íslensku hljómsveitinni Kaleo. Spurður um ástæðu þess að hann valdi þessi tregafullu lög í stiklurnar sagði leikstjórinn James Mangold að það væri einfaldlega lýsandi fyrir andrúmsloft hennar. „Þessi mynd er mun mannlegri en aðrar X-Menmyndir,“ sagði hann, „og til dæmis er notkun grænskjáa og tölvubrellna mun minni en áður í þessum myndum.“


Stóra stökkið

Teiknimyndin Stóra stökkið verður frumsýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.

Árið er 1879 og ung, munaðarlaus stúlka hefur þann eina draum að fá að dansa. Hún leggur á ráðin ásamt vini sínum, Viktori, sem ætlar sér að verða uppfinningamaður, um að strjúka frá munaðarleysingjahælinu í Brittany og ferðast til borgar ljóssins, Parísar, þar sem Eiffelturninn er í smíðum. Félicie þarf að leggja sig alla fram til þess að láta drauma sína rætast og verða ballerína hjá Óperuhúsinu í París.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Leikstjórn: Éric Warin, Eric Summer

Helstu leikarar: Þórhallur (Laddi) Sigurðsson, Vaka Vigfúsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Ævar Þór Benediktsson, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir.