Frumraun bresks undrabarns á Blu og Q&A við aðalleikarann

Nýverið kom út á Blu-ray „Revenge of the Blood Beast“ (einnig þekkt undir titlinum „She-Beast“) og með henni eru allar myndir breska undrabarnsins Michael Reeves komnar út í háskerpu. Hinar tvær eru „Sorcerers“ (1967) með Boris Karloff og „Witchfinder General“ (1968) með Vincent Price í aðalhlutverkum. Einnig var haldið Q&A viðtal við leikarann Ian Ogilvy sem lék í öllum myndum Reeves.

Michael Reeves

Reeves þótti með eindæmum hæfileikaríkur kvikmyndagerðamaður og mikils var vænst af honum í framtíðinni. Örlögin gripu í taumana og Reeves lést árið 1969 einungis 25 ára gamall eftir að hafa óvart innbyrgt of mikið magn af svefntöflum. Á stuttum tíma leikstýrði hann þremur kvikmyndum (í raun fjórum þar sem hann var einn af þremur leikstjórum „Castle of the Living Dead“ (1964) með Christopher Lee í aðalhlutverki en nafn kemur ekki fram) og hver þótti betri en hin á undan.

Ódýr og viðvaningsleg frumraun

Fyrsta mynd Reeves var „Revenge of the Blood Beast“ frá árinu 1966. Reeves þótti standa sig vel þegar hann tók við stjórnartaumunum á „Castle of the Living Dead“ eftir að myndin stóð uppi leikstjóralaus og fyrir vikið var honum treyst fyrir ódýrri hryllingsmynd sem hafði lítið fjármagn á bak við sig. Þetta var tækifæri sem hann nýtti vel og þrátt fyrir litla hjálp frá framleiðendum eða myndveri tókst Reeves að búa til ágætis ræmu sem flæðir ótrúlega vel þegar allar takmarkanirnar eru hafðar í huga. Myndin var skotin á fjórum dögum og aðalleikari myndarinnar var æskuvinurinn Ian Ogilvy sem hafði leikið í nokkrum heimagerðum myndum Reeves á unglingsárum. Stórum hluta hins takmarkaða fjármagns var eytt í að fá hryllingsmyndastjörnuna Barböru Steele í myndina en einungis dugði peningurinn fyrir einum tökudegi með leikkonunni. Hann var vel nýttur þar sem henni var þrælað út í 18 klukkustundir þann dag og hennar nafn var skammlaust notað til að kynna og selja myndina.

Myndin segir frá illskeyttri norn sem er tekin af lífi af reiðum þorpsbúum en snýr aftur þegar nýgift hjón (Ogilvy og Steele) keyra óvart bílnum sínum í vatnið þar sem henni var drekkt. Einhvern veginn virðist andi Steele endurvekja nornina og upphefst þá eltingarleikur við hana þar sem Ogilvy vill óður endurheimta konu sína og til þess þarf að deyða nornina á nýjan leik.

Viðvaningsbragur einkennir myndina að hluta en hún hefur margt jákvætt við sig og er faglega unnin að miklu leyti. Kvikmyndatakan er góð og furðu mikil spenna næst þegar nornin snýr aftur og lætur til sín taka. Húmorinn er á köflum frekar stirður en rétt stemmdir áhorfendur munu geta skellt upp úr á nokkrum stöðum. Blu-ray útgáfan frá Raro Video er mjög vel heppnuð þegar kemur að myndgæðum og þetta er nánast eins og að sjá myndina í fyrsta skipti þar sem fyrri VHS og DVD útgáfur voru af verri endanum. Hljóðfíklar munu þó telja sig illa svikna en eitthvað hefur klikkað á þeim bænum. Stilla þarf hljóðstyrkinn ansi hátt til að heyra ágætlega talið í leikurunum. Ljóst er þó að myndin mun aldrei líta betur út og góð kvikmyndataka og fallegt umhverfi njóta sín sem aldrei fyrr.

„Revenge of the Blood Beast“ á Blu-ray

Gæðin batna

Á meðan „Revenge of the Blood Beast“ er ekki hátt skrifuð hjá mörgum þóttu næstu tvær myndir Reeves mun betur heppnaðar. „Sorcerers“ er hin fínasta mynd og var hún ein af þeim síðustu sem hinn goðsagnakenndi Boris Karloff („Frankenstein“ 1931) lék í. Karloff og Catherine Lacey leika öldruð hjón sem hafa fullkomnað tækni sem gerir þeim kleyft að lifa sig í gegnum ungan mann (Ian Ogilvy) og stjórna hegðun hans. Þau láta eftir ýmsum bældum hneigðum og fyrr en varir koma morð við sögu. „Sorcerers“ er að öllu leyti faglegri og betri mynd og allir viðvaningshnökrar fyrri myndarinnar ekki til staðar enda fékk Reeves nægilegt fjármagn og meiri tíma til að gera myndina.

Meistarastykki Reeves er án efa „Witchfinder General“. Myndin er vægðarlaus sýn á ógnartíð Matthew Hopkins, umsvifamesta nornaveiðarans samkvæmt heimildum.  Á rúmlega tveimur árum, frá  1644-1647, er sagt að Hopkins hafi tekið af lífi yfir 300 konur sem hann og aðstoðarmaður hans sökuðu um að eiga í samstarfi við Kölska.

„Þrjár góðar“

„Witchfinder General“ skartar Vincent Price í aðalhlutverki og hefur leikaranum alla tíð verið hampað fyrir algeran leiksigur í myndinni. Hann kom þó ekki áreynslulaust þar sem Price og Reeves kom einstaklega illa saman við gerð myndarinnar. Reeves gerði leikaranum það ljóst að hann vildi frekar fá annan leikara (sagt er að hann hafi viljað Donald Pleasence) en hafi þurft að sætta sig við Price þar sem framleiðendur myndarinnar hafi sett það sem skilyrði. Hvernig sem líður þá virðist þetta ósætti hafa kallað fram bestu hliðar Price en frammistaðan þykir ein hans besta. Skemmtileg saga segir að eftir rifrildi þeirra á milli hafi Price sagt; „Ungi maður. Ég hef leikið í 94 kvikmyndum. Hvað hefur þú gert margar?“ Reeves á þá að hafa sagt; „Þrjár góðar.“

Vincent Price sem Matthew Hopkins

Sem fyrr lék Ogilvy stórt hlutverk í myndinni.

„Ekki þess virði að horfa á í dag“

Höfundur greinar hafði samband við Ian Ogilvy í tilefni af því að „Revenge of the Blood Beast“ er komin út á Blu-ray. Hann var til í að fara yfir nokkrar spurningar og veita svör við þeim.

Ian Ogilvy í „Sorcerers“

„Revenge of the Blood Beast“, költ mynd frá árinu 1966, kom nýlega út á Blu-ray og hún lítur mjög vel út í háskerpu. Þú leikur aðalhlutverkið í myndinni ásamt Barböru Steele. Hvert er þitt álit á myndinni og hvernig kom hún til?

„Ég hafði leikið í nokkrum viðvaningsmyndum sem Mike Reeves gerði þegar við vorum ungir skólapiltar og svo skildu leiðir. Svo mörgum árum seinna bauð hann mér aðalhlutverk í mynd sem hann ætlaði að leikstýra og við endurnýjuðum vinskap okkar.  Mér finnst myndin alveg hræðileg. Hún er óþægileg samsuða mismunandi stíla og aðalleikarinn er hræðilegur. Grínatriðin eru léleg og þau voru sett inn fyrst og fremst sökum þrýstings frá framleiðendum myndarinnar. Handritið er tilgerðarlegt. Myndin er að öllu leyti frumraun þeirra sem að henni komu og er ekki þess virði að horfa á í dag.“

Myndin fær góða dóma á Blu-ray vefsíðum. Ertu ánægður með að hún fái frekara áhorf?

„Mig hryllir við tilhugsunina satt að segja. Eins og ég sagði þá finnst mér myndin ömurleg. Margar aðrar myndir með mér hafa verið jarðsettar á viðeigandi máta og slíkt hið sama hefði átt að eiga sér stað með Revenge“.

Ian fékk fleiri spurningar er snéru að litríkum ferli hans sem er enn í fullum blóma og hann gaf sér tíma til að svara þeim öllum. Allt Q&A viðtal Ian‘s Ogilvy verður birt á kvikmyndir.is fljótlega.