Fyrsta myndbrot úr John Wick 2 – nýr hundur og Continental

Það eru örugglega margir orðnir óþreyjufullir að sjá framhaldið af John Wick, John Wick Chapter 2, sem kemur í bíó 10. febrúar nk.  Fyrri myndin var fantagóð og því má svo sannarlega eiga von á góðu.

Í glænýju broti úr nýju myndinni fáum við að sjá fremur tuskulegan Wick koma í leigumorðingjaathvarfið á Continental hótelinu, með nýja hundinn sinn sem hann náði sér í í dýraathvarf undir lok síðustu myndar ( morðið á gamla hundinum var kveikjan að blóðbaðinu í myndinni ), og biður vinsamlegast um að fá að hitta hótelstjórann, en hvaða erindi hann á við hann, er ekki vitað.

john wick 2

Framleiðandi myndarinnar, Basil Iwanyk, var spurður að því á dögunum hvort að nýi hundurinn myndi drepast í myndinni, en hann svaraði engu beint um það, nema að það gerðist eitthvað frábært fyrir hundinn.

Keanu Reeves, sem leikur Wick, hefur einnig gefið í skyn að hundurinn muni halda lífi út myndina.

Leikarar úr fyrri myndinni, þau Ian McShane (Winston), John Leguizamo (Aurelio), Bridget Moynahan (Helen), Thomas Sadoski (Jimmy) og Lance Reddick (Charon) snúa aftur í nýju myndinni, en við bætast nýir leikarar þau Riccardo Scamarcio sem nýja illmennið, Laurence Fishburne sem leigumorðinginn The Bowery King, Common, Ruby Rose og Peter Stormare.

Leikstjórinn Chad Stahelski hefur sagt að hasarinn í myndinni sé tvöfalt meiri en í fyrri myndinni, og við fáum að kynnast meira af þeim neðanjarðarheimi sem tilheyrir Continental hótelinu.

Sjáðu myndbrotið hér fyrir neðan: