Lofandi nýliðar í Blu-ray bransanum

Þó svo að niðurhal sé orðið algengara en beinhörð eintök þá er enn töluvert líf í útgáfum á diskum í háskerpu og tvö ný fyrirtæki í Blu-ray bransanum fóru af stað seint á árinu.

indi-body      indi-christine

Indicator er breskt fyrirtæki sem byrjaði á að gefa út „Body Double“ (1984) og „Christine“ (1983) eftir John Carpenter í flottum viðhafnarútgáfum sem fengið hafa blússandi dóma hjá öllum síðum sem taka í gegn mynd- og hljóðgæði. „Body Double“ eftir Brian De Palma lítur sérstaklega vel út í háskerpu og aukaefnið gerir myndinni eins ítarleg skil og hægt er að hugsa sér. Í stuttu máli er þetta eins og maður vill hafa það þegar um viðhafnarútgáfu er að ræða.

indi-guess   indi-10  indi-to-sir

Nýútkomnar eru hinar sígildu „Guess Who‘s Coming To Dinner“ (1967) með þeim Sidney Poitier og Spencer Tracy, „To Sir With Love“ (1967) sem skartar einnig Poitier og loks „10 Rillington Place“ (1971) með þeim Richard Attenborough og John Hurt í aðalhlutverkum. Allt eru þetta klassískar myndir en bestu tíðindin hér eru ef til vill þau að sumir þessara titla voru einungis fáanlegir áður fyrr frá bandaríska útgáfufyrirtækinu Twilight Time. Sannir Blu-ray unnendur utan Bandaríkjanna líta fyrirtækið hornauga þar sem einungis var um takmörkuð upplög að ræða og það var bara hægt að nálgast diskana beint frá söluaðila og á rjúkandi háu verði. Með innflutningstollum og öllu var hver diskur aldrei undir 8.000 krónum. Svo virðist sem Indicator bæti líka um betur þegar kemur að aukaefni. Komið hefur þó fram að diskarnir verði framleiddir í 5.000 eintökum þannig að umhugsunartíminn er ekki endalaus.

indi-last  indi-happy

Væntanlegir titlar frá þeim eru meðal annars „The Last Detail“ (1973) með Jack Nicholson og „Happy Birthday to Me“ (1981) en sú miðlungs slægja skartar þó gæðaleikaranum Glenn Ford í einu af aðalhlutverkunum og það eitt gerir hana að áhugaverðum grip. Snemma á næsta ári munu tvær aðrar John Carpenter myndir fá viðhafnarútgáfu; „Vampires“ (1998) og „Ghosts of Mars“ (2001). Flott byrjun hjá nýjum aðila í bransanum og spennandi að sjá hvað fleira kemur á næsta ári.

Í Bandaríkjunum fór af stað einkar áhugavert fyrirtæki; Vestron Video. Fyrirtækið var alger risi á dögum VHS spólunnar og gaf út heilan haug af B-myndum og fór síðar út í að framleiða bíómyndir; þar á meðal „Dirty Dancing“ (1987) og „Earth Girls Are Easy“ (1988) með meistara Jeff Goldblum. Í seinni tíð fór að halla undan fæti og í dag á fyrirtækið Lions Gate Entertainment meirihlutann í öllu safninu og ákveðið hefur verið að kafa í brunninn og taka þátt í Blu-ray útgáfubransanum.

vestron-chopping  vestron-diner

Fyrstu titlarnir til að hljóta viðhafnarútgáfu voru „Chopping Mall“ (1986), „Blood Diner“ (1987), „Waxwork“ (1988) og „Waxwork II: Lost in Time“ (1992). Þessar ræmur voru aldrei hátt skrifaðar hjá gagnrýnendum en þær voru gríðarlega vinsælar leigumyndir á sínum tíma og margir „cult“ unnendur hugsa hlýlega til þessara mynda. Vestron Video fer svo sannarlega vel með eignir sínar því mynd- og hljóðgæði eru fyrsta flokks og aukaefnið sérlega áhugavert og vel unnið. Heimildarmyndir, yfirlestrar og fleira fylgja öllum titlunum og í sumum tilfellum er þar meira skemmtigildi að finna en í myndunum sjálfum.

vestron-dead-3  vestron-chud-2

Nýútkomnar eru hin þrælgóða og vanmetna „Return of the Living Dead 3“ (1993) og hin frekar hræðilega „C.H.U.D. 2 – Bud the Chud“ (1989) og þær fá engu síðri veglegar útgáfur. Snemma á næsta ári koma svo hin vitfirrta „Parents“ (1989) með Randy Quaid og hrollvekjan „Lair of the White Worm“ (1988) með Hugh Grant. Ó já, kappinn lék í hrollvekju en hún er samt með töluvert mikinn húmor inn á milli.

lair-hugh

Einnig góð byrjun hjá þessu flotta útgáfufyrirtæki og buddurnar hjá söfnurum gætu verið frekar tómlegar á árinu 2017.