Arnold Schwarzenegger í kínverskri ofurmynd

Ofurstjarnan Arnold Schwarzenegger hefur skrifað undir samning um að leika í nýrri kínverskri stórmynd, The Guest of Sanxingdui. Verkefnið kemur í kjölfar velgengni síðustu Terminator myndar, Terminator Genisys, í Kína.

arnold-schwarenegger

Samkvæmt kínversku vefsíðunni CRI þá hljóðar kostnaðaráætlun upp á 200 milljónir Bandaríkjadala og tekið verður upp í þrívídd. Sögusvið myndarinnar verða Sanxingdui rústirnar svokölluðu, sem taldar eru vera leifar hins forna Shu konungsríkis, sem hvarf skyndilega fyrir 3.000 árum síðan.

Haft hefur verið eftir Schwarzenegger að í myndinni verði fléttuð inn alþjóðleg saga í þeim tilgangi að kynna menningu Sanxingdui fyrir umheiminum.

Tökur eiga að hefjast í mars á næsta ári og frumsýning er áætluð árið 2019.

Næst fáum við að sjá Schwarzenegger í myndinni Aftermath ( sem hét upphaflega 478 ) og þar á eftir er það gaman-spennumyndin Why We´re Killing Gunther.